140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

fundarstjórn.

[16:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Af þeim óljósu fréttum sem ég hef úr fjölmiðlum um málið virðast vera í uppsiglingu mjög mikil tíðindi sem lúta að því hvernig staðið var að málum með löggjöfinni varðandi endurútreikning erlendra lána. Það hlýtur að kalla á að efnahags- og viðskiptanefnd komi saman eins fljótt og hægt er til að fara yfir þessi mál og menn átti sig á því hvað hér er að gerast.

Hér er auðvitað um það að ræða að Alþingi hefur sett lög sem Hæstiréttur gerir nú með einhverjum hætti ómerk, eins og ég skil málið, með þeim fyrirvörum að ég las fréttirnar rétt í þessu í flýti í símanum mínum. En það er augljóst mál að nú verður efnahags- og viðskiptanefnd að koma saman eins fljótt og hægt er til að fara yfir þessi mál og átta sig á því hvernig brugðist verður við.