140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

fundarstjórn.

[16:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru svo sannarlega góðar fréttir fyrir lántakendur sem tóku ólöglegu gengislánin en þetta er hins vegar afskaplega dýrt klúður hjá ríkisstjórninni. Við vitum ekki hvaða afleiðingar þetta hefur. Fyrstu viðbrögð eru þau að væntanlega þarf að reikna upp öll lánin aftur. Þá hljóta menn að spyrja líka hvað margir hafi misst eignir sínar út af þessari klúðurslagasetningu hæstv. ríkisstjórnar. Svo sannarlega getur enginn haldið því fram að hér hafi ekki verið farið með varnaðarorð. Nú er til dæmis í hv. efnahags- og viðskiptanefnd frumvarp sem ég er 1. flutningsmaður að um breytingar einmitt á þessum lögum, sem átti að taka fyrir og það var fyrsta mál sem ég flutti á þessu þingi út af mikilvægi málsins.

Verkefni okkar núna er hins vegar að sjá til þess að ekki komi enn meiri óvissa. Ég vonast til þess að við munum vanda til (Forseti hringir.) verka, jafnframt þurfum við að vinna hratt og sjá til þess að það fólk sem hefur verið að missa eignir sínar eða er nærri því að missa eignir sínar þurfi ekki að lenda í (Forseti hringir.) því, virðulegi forseti.