140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

framtíð innanlandsflugsins.

[16:45]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu um mikinn kostnað við samgöngur innan lands. Kostnaður við innanlandsflugið er orðinn gríðarlegur og eins og bent var á af hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni er farmiðaverð í innanlandsflugi orðið gríðarlega hátt. Það væri hins vegar miklu, miklu hærra ef tekið væri tillit til alls þess kostnaðar sem skapast vegna Reykjavíkurflugvallar.

Ég nefni nokkur dæmi. Kostnaður vegna reksturs á innanlandsflugvöllum er um 2 milljarðar kr. á ári. Það gerir um 5.500 kr. á hvern seldan flugmiða á síðasta ári. Verðmæti landsins, þeirra 130 hektara sem Reykjavíkurflugvöllur nær yfir, er um 105 milljarðar kr. miðað við almennt leiguverð ríkisins á ríkisjörðum. Slíkt leiguverð, ef það væri rukkað, mundi þýða um 4.500 kr. á hvern miða frá ríkinu og 9.000 kr. til viðbótar á hvern miða frá Reykjavíkurborg. Þannig að allur kostnaður við allt þetta flug er kominn algjörlega úr böndum vegna þess að verðlagning á öllum stigum málsins er komin út úr kortinu.

Ég styð innanlandsflug, en innanlandsflug með þeim hætti sem við höfum búið við hingað til er barn síns tíma, á sama hátt og strandsiglingar voru. Ég tel að ná þurfi sátt við Reykvíkinga og íbúa höfuðborgarsvæðisins um að íbúðasvæði verði byggt á flugvallarsvæðinu og flugvöllurinn fluttur til Keflavíkur. Þar bíður fullbúin flugstöð. Það eina sem þarf að gera er að taka hana úr lás. Ég kom frá flugstöð Leifs Eiríkssonar í gærkvöldi, ég var 25 mínútur þaðan og inn í Hafnarfjörð, jafnlengi og ég er frá Hafnarfirði upp í Grafarvog og jafnlengi og ég er frá Grafarvogi og suður á Keflavíkurflugvöll. Öll þessi umræða snýst um að þingmenn geti komist frá Reykjavíkurflugvelli og niður í Alþingishús, en það er einfaldlega ekki sá tímarammi sem almenningur almennt býr við á höfuðborgarsvæðinu. Ég mun svo nefna fleiri atriði um þetta mál (Forseti hringir.) í seinni hluta umræðunnar á eftir.