140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

framtíð innanlandsflugsins.

[16:49]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál um framtíð innanlandsflugs hér á landi. Ég tel að við stöndum á nokkrum tímamótum og nauðsynlegt sé að kortleggja það hvort við ætlum að hafa innanlandsflug og þá með hvaða hætti það verði tryggt. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra sem hann lét falla í svari sínu að sú vinna væri að fara í gang og í samráði við Reykjavíkurborg.

Ég tel að við séum öll sammála um mikilvægi innanlandsflugsins og að það verði hér áfram og styrkt frekar en hitt, enda kemur fram í samgönguáætlun að það sé sá ferðamáti sem við eigum að leggja áherslu á.

Fyrir utan þá óvissu sem framtíðarstaðsetning flugvallarins á höfuðborgarsvæðinu veldur er verðlagið líka einn af óvissuþáttunum. Verð á flugmiðum er orðið svo hátt að það hefur áhrif á það hvort fólk velji þennan ferðamáta. Um leið og dregur úr aðsókn verður reksturinn erfiðari. Þetta verður eins og spírall; því færri farþegar, því hærra gjald og þar með erfiðari rekstur. Enda er það svo í dag að flug á milli landsvæða hefur nær algerlega lagst af. Núna er eingöngu flogið á fjóra áfangastaði frá Reykjavík. Við þurfum vissulega að horfa á þetta sem eina heild. Það þarf (Forseti hringir.) margt að breytast til þess að við getum tryggt innanlandsflugið hér áfram.