140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

framtíð innanlandsflugsins.

[16:52]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Innanlandsflug gegnir veigamiklu hlutverki í okkar strjálbýla landi sem er erfitt yfirferðar. Þær nútímakröfur sem gerðar eru til atvinnu og þjónustusvæða og búsetuskilyrða almennt gera að verkum að til mikils er að vinna að innanlandsflugið komi landsmönnum öllum að sem bestum notum. Hér þarf að huga bæði að skipulagi og rekstrarskilyrðum eins og fram hefur komið í dag. Almenningur verður að eiga þess kost að nýta sér þennan samgönguvalkost á viðráðanlegu verði og í því ljósi eru auðvitað nýlegar ákvarðanir um miklar hækkanir lendingargjalda og farþegagjalds áhyggjuefni.

Hér þarf að huga að fleiru, til dæmis umhverfisáhrifum og umferðaröryggi. Hvaða þýðingu hefði það til dæmis ef sá farþegafjöldi sem nú ferðast með flugi innan lands mundi færast yfir á vegi landsins með tilheyrandi umferðarþunga og þar með útblæstri og slysahættu?

Síðustu ár hefur mikil umræða staðið um það hvar miðstöð innanlandsflugsins eigi að vera og hvort Reykjavík eigi að geta ákveðið það einhliða fyrir sitt leyti hvort hér sé flugvöllur. Um þetta eru skiptar skoðanir í öllum stjórnmálaflokkum.

Reykjavík er höfuðborg landsins og höfuðborg hefur skyldum að gegna við byggðir landsins. Hún á því ekki að vera einráð um hvort hér skuli vera miðstöð innanlandsflugs sem þjónar flugsamgöngum um land allt. Hins vegar finnst mér ekki nema sjálfsagt að Reykvíkingar fái sjálfir að ákveða hvar í borgarlandinu sá flugvöllur sé staðsettur.

Ég get því ekki tekið undir þá kröfu sem fram hefur komið að Alþingi eigi að segja borgaryfirvöldum fyrir verkum varðandi staðsetningu flugvallar. Þar með væri þingið farið að hlutast til um skipulagsmál og um leið sjálfsstjórnarvald sveitarfélaga. Þegar vísað er til ríkra almannahagsmuna í þessu sambandi vill gleymast að því fylgir hætta að hafa flugvöll staðsettan í hjarta borgarinnar þar sem aðflugsstefnan liggur í flestum tilvikum yfir fjölmenna byggð, (Forseti hringir.) þungar umferðaræðar og helstu stjórnsýslustofnanir landsins.

Þannig að lykilatriðið er: Reykvíkingar eiga að fá að ráða því sjálfir hvort völlurinn er í Vatnsmýrinni, en að sjálfsögðu á miðstöð innanlandsflugsins að vera á þessu svæði.