140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

framtíð innanlandsflugsins.

[16:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þeirri umræðu sem hér fer fram um framtíð innanlandsflugsins. Kominn er tími til að fara að taka ákvarðanir. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni sérstaklega fyrir að vekja máls á þessu og hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, að gefa því vel undir fótinn að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Ég vil minna á að þegar R-listinn starfaði undir formennsku Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur var farið af stað með ráðgefandi atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa um hvort flugvöllurinn ætti að vera eða fara. Munurinn sem kom fram í þeirri atkvæðagreiðslu var svo lítill að hann var ekki marktækur, sem sýnir hvað ráðgefandi atkvæðagreiðslur eru raunverulega marklausar. Á þessari atkvæðagreiðslu hefur Samfylkingin í Reykjavík hangið eins og hundur á roði; að flugvöllurinn skuli í burtu 2016. Það er enn þá stefna Samfylkingarinnar í Reykjavík að flugvöllurinn eigi að fara úr Vatnsmýrinni.

Virðulegi forseti. Þetta er enn eitt málið sem Samfylkingin heldur í gíslingu.

Hæstv. innanríkisráðherra er mjög hlynntur því að fara að vilja meiri hluta landsmanna og hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, því að við borgarbúar höfum skyldum að gegna við landið allt og landsmenn alla. En því miður situr ráðherrann í ríkisstjórn með Samfylkingunni sem vill völlinn í burtu.

Því vil ég nota þetta tækifæri og skora á hæstv. innanríkisráðherra að standa með okkur framsóknarmönnum og landsmönnum öllum við að stuðla að uppbyggingu í Vatnsmýrinni í eitt skipti fyrir öll, eyða þeirri óvissu sem ríkir (Forseti hringir.) og hjálpa okkur að skapa framtíðarsýn fyrir innanlandsflugið til langs tíma.