140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

framtíð innanlandsflugsins.

[16:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa ágætu umræðu sem hefur verið mjög málefnaleg eins og ævinlega þegar við ræðum um mál sem snúa að innanlandsflugi og þar með Reykjavíkurflugvelli. Ég vil þakka hæstv. ráðherra sömuleiðis fyrir viðbrögð hans í umræðunni og sérstaklega vil ég fagna þeirri yfirlýsingu hans að grundvallaratriði sé að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað, þ.e. í Vatnsmýrinni. Það er alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra segir, það eru bara tveir valkostir í stöðunni. Annaðhvort verður Reykjavíkurflugvöllur þar sem hann er eða innanlandsflugið fer til Keflavíkur. Það eru engar forsendur fyrir því að fara í milljarða eða tugmilljarða framkvæmdir einhvers staðar uppi á heiðum eða út með sjó, þar sem enginn veit í dag hvort hægt sé með skynsamlegum hætti að byggja nýjan flugvöll. Þannig að við skulum bara horfast í augu við það og við vitum hverjar afleiðingarnar yrðu. Það kom fram á nýlegri ráðstefnu að það mundi þýða að innanlandsflug á stað eins og til dæmis Ísafjörð mundi bara leggjast af. Þá vitum við það. Það er þá staðan í málinu.

Hitt atriðið sem ég nefndi, álögurnar á flugið, er að mínu mati mjög mikið áhyggjuefni. Ég nefndi tölur um að frá árinu 2009 hefðu þessar álögur hækkað um 114%. Hæstv. ráðherra vísaði til þess að skoða bæri það í því samhengi að hækkanir á þessum gjaldstofnum hefðu verið mjög litlar árin á undan. Það er alveg rétt. Það er einmitt kjarni málsins. Það sem reynt var að gera var að framfylgja þeirri stefnu að halda eins mikið aftur af öllum gjöldum gagnvart innanlandsfluginu eins og hægt væri til að styðja við það og halda aftur af verðhækkunum á flugmiðum.

Nú hefur verið tekin upp ný stefna sem er að éta upp þennan mun og hækka álögurnar, hækka gjöldin. Það hefur auðvitað áhrif til hækkunar á farmiðum í innanlandsflugi eins og við höfum þegar séð og er þegar farið að bíta mjög hressilega í.

Eins og ég nefndi áðan er 70–80 þús. kr. kostnaður fyrir hjón sem fljúga fram og til baka (Forseti hringir.) frá Egilsstöðum, Akureyri eða Ísafirði til Reykjavíkur, auðvitað óviðunandi. Þetta gerir að verkum að það verður ekki á færi nema þeirra sem betur eru staddir fjárhagslega (Forseti hringir.) að nýta sér innanlandsflugið. Ég veit að við hæstv. ráðherra erum sammála um að þannig viljum við ekki hafa hlutina.