140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

framtíð innanlandsflugsins.

[17:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil nefna aðeins eitt atriði sem er mjög jákvætt í þróun mála og það er að lendingargjöld á flugvöllum úti á landi eru að lækka fyrir millilandaflugið. Þá er ég að horfa sérstaklega til Akureyrar og ég er að horfa til Egilsstaða þannig að þetta er ekki allt í átt til hækkunar.

Síðan ítreka ég það sem kom fram í máli mínu áðan að þrátt fyrir allt hefur flugfarþegum í innanlandsflugi fjölgað, þeim fjölgaði á árinu sem leið eftir að þeim hafði fækkað talsvert áður. Það er ágætt að hafa í huga umfang stuðnings ríkisins. Ríkið greiðir 75% af rekstrarkostnaði flugvallanna, það er um einn og hálfur milljarður á ári, og síðan eru styrkir til innanlandsflugsins sem hafa verið svolítið sveiflukenndir. Árið 2003 voru þeir 123 milljónir, 2005 135 milljónir, 2007 145 milljónir, 2009 fara þeir upp í 340 milljónir rúmar og nú erum við í 190 milljónum eða þar um bil.

Við þurfum að horfa á þetta allt saman í samhengi og þá líka Reykjavíkurflugvöll og umræðuna um hann. Fólk horfir á kostnaðinn við að fljúga og hagkvæmnina. Það er munur á því að fljúga til Reykjavíkur þar sem stjórnsýslan er, þar sem þjónustan er, eða að fljúga til Keflavíkur, þetta er bara staðreynd og það er ekkert hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd. Það er heldur ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að þótt skipulagsvaldið sé hjá Reykjavíkurborg er eignarhaldið á flugvallarsvæðinu að uppistöðu til í eigu ríkisins. Ríkið á þetta svæði, ekki Reykjavíkurborg.

Auðvitað er það þjóðin öll sem endanlega á að taka ákvörðun, en ég vil líka benda á þá viðhorfsbreytingu sem virðist hafa átt sér stað í Reykjavík. Þegar atkvæðagreiðslan fór fram á sínum tíma (Forseti hringir.) var lítil þátttaka, það var lítill munur, en síðustu skoðanakannanir gefa til kynna að yfir 80% Reykvíkinga, borgarbúa, séu hlynnt því að hafa flugvöllinn í Reykjavík þannig að hér er ekki verið að tala gegn almannavilja í Reykjavík nema síður sé.