140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[17:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrsta spurning hv. þingmanns kallar á siðferðilegar og sagnfræðilegar vangaveltur um skýringar á því af hverju íslenskt samfélag er eins og það er. Auðvitað hafa trúarbrögð haft sitt að segja og þau gildi sem hv. þingmaður vísar til við mótun samfélags okkar. Breyting á þessari löggjöf eða jafnvel á stöðu þjóðkirkjunnar eða annarra trúarhreyfinga breytir ekki miklu þar um, vegna þess að þar er grunnurinn meiri en svo, tel ég vera. Þetta eru fyrst og fremst vangaveltur um það hvernig samfélag okkar hefur þróast í sögulegu tilliti.

Varðandi þann lágmarksfjölda sem yrði að vera í félagi, ef ég hef skilið spurninguna rétt, þá hefur það verið þannig í framkvæmd að ekki skulu vera færri en 25 félagar í söfnuðum. Það kemur vel til álita að skoða einhver slík mörk og setja í reglugerð, að yfirveguðu ráði þeirra sem veita þessar heimildir. Ég tek fram að nú fer nefnd yfir allar umsóknir og það gildir jafnt um kristna söfnuði sem íslamska söfnuði eða önnur trúfélög. Nefnd fer yfir umsóknir einstakra hópa og hið sama mun gilda núna um lífsskoðunarfélögin. Til að bregðast við þeirri breytingu sem hér á sér stað hefur verið fjölgað í þessari nefnd, eins og ég gat um í framsögu minni, og inn í hana kemur fulltrúi frá sagnfræði- og heimspekiskor Háskóla Íslands. (Forseti hringir.) Ég kem síðar að skattbreytingum eða sóknargjöldum.