140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[17:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra kærlega fyrir að koma fram með þetta frumvarp. Í upphafi máls míns vil ég taka fram að ég vil nálgast þetta mál og þær breytingar sem verið er að leggja til með mjög jákvæðum hætti, að lífsskoðunarfélög geti fengið skráningu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Ég vil líka taka fram að þær breytingar sem lagðar eru til í 9. gr. frumvarpsins um skráningu í trúfélög hugnast mér sérstaklega vel. Það er að sjálfsögðu oft þannig að afstaða manns mótast af því umhverfi og þeim persónum sem maður hefur kynnst á lífsleiðinni. Ég er ágætlega gift og maðurinn minn hefur staðið utan trúfélaga í töluvert langan tíma og það var einmitt eitt af samkomulagsatriðum í okkar hjónabandi að við ákváðum að gifta okkur borgaralega en ekki í kirkju. Hann hefur staðið utan trúfélaga en ég hef verið og er í þjóðkirkjunni og vegna þess hvernig lögin hafa verið hingað til voru dætur okkar skráðar sjálfkrafa í þjóðkirkjuna þegar þær fæddust. Það var sem sagt ekki ákvörðun sem við tókum markvisst. Ég held einmitt að það sé mjög gott að sú umræða fari fram milli foreldra barns eins og kemur fram í 9. gr., að ef foreldrar barns, sem eru í hjúskap eða skráð eru í sambúð við fæðingu þess, heyra ekki til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, þurfi þeir að taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá til hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barnið eigi að heyra og að fram til þess tíma sé þessi staða barnsins ótilgreind.

Þó að dætur okkar séu skráðar í þjóðkirkjuna á grundvelli skráningar minnar tókum við þá ákvörðun að skíra þær ekki og höfum lagt áherslu á það í uppeldi dætra okkar að ræða opinskátt við þær um trúarbrögð og reyna þannig að tryggja að þegar þær hafa þroska til geti þær sjálfar tekið afstöðu til þess hvort þær vilji vera áfram í þjóðkirkjunni eða ganga í önnur trúfélög eða, ef við samþykkjum þessi lög, skrá sig í lífsskoðunarfélag sem samrýmist lífsafstöðu þeirra og skoðunum.

Ég verð að segja að mér finnst mjög jákvætt að þetta mál skuli vera komið fram. Það er líka sérstaklega jákvætt í ljósi þeirra frétta sem hafa verið í fjölmiðlum undanfarið, að enda þótt við fengjum að ýmsu leyti jákvæða umsögn um hvernig við höfum haldið á málum sem varða alþjóðlega mannréttindasáttmála komu ábendingar um að við þyrftum að bæta okkur varðandi trúfrelsi á Íslandi. Í greinargerð frumvarpsins er fjallað sérstaklega um lífsskoðunarfélög og alþjóðasamninga um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem eru taldir sambærilegir við mannréttindasáttmála Evrópu. Þar er lögð sérstök áhersla á einmitt mikilvægi þess að gæta að hugsana-, samvisku- og trúfrelsi.

Ég held að ekki hafi farið fram nægileg umræða, hvorki innan þings né í samfélaginu almennt, um það hvernig við förum að þessu. Við erum langflest mjög sátt við okkar kirkju, okkar presta og raunar hvernig þeir nálgast sitt hlutverk í samfélaginu en samfélagið er hins vegar að verða mun fjölbreyttara og því er mjög mikilvægt að við gætum að réttindum allra sem búa á Íslandi, að trú þeirra, að hugsana- og samviskufrelsi hvers einstaklings, einnig rétti trúleysingja, efasemdarmanna og þeirra sem ekki taka afstöðu eða eftir atvikum aðhyllast önnur hugmyndakerfi en við almennt teljum viðurkennd.

Undanfarna daga hefur verið töluverð umræða um réttinn til að iðka trú sína og láta í ljós trú sína eða sannfæringu. Í greinargerðinni er einmitt nefnt mikilvægi þess að vernda hugsana-, samvisku- og trúfrelsi og sérstaklega réttinn til að rækja, láta í ljós eða iðka trú sína eða sannfæringu með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi. Þá er talað um að ríki séu hvött til að grípa til aðgerða í því skyni að efla umburðarlyndi og virðingu fyrir sannfæringu annarra og þó að það sé tiltölulega mikil sátt um þjóðkirkju megi ríki ekki fara þannig fram að það brjóti gegn hugsana-, samvisku- og trúfrelsi þeirra sem ekki aðhyllast þá hugmyndafræði eða leiði til mismununar gagnvart þeim.

Í gær skrifaði ég pistil þar sem ég velti fyrir mér rétti einstaklings sem ekki er í þjóðkirkjunni heldur í öðru trúfélagi til að aðhyllast skoðanir eða trúa hlutum sem meginþorri Íslendinga er ósammála og telur rangar eða vill ekki túlka grundvallarrit kristinnar trúar, Biblíuna, á sama máta. Hvaða kröfur við getum gert, í þessu tilviki til opinberra starfsmanna um jafnvægi á milli annars vegar þess sem menn gera í starfi sínu og hins vegar þess sem þeir gera þegar þeir nýta rétt sinn til trúfrelsis, rétt til tjáningar, málfrelsis, og síðan jafnræðis, að menn séu ekki að troða á rétti annarra.

Þetta frumvarp felur í sér stórar spurningar og ég fagna því virkilega að fá að fylgjast með hvernig allsherjar- og menntamálanefnd mun vinna þetta mál. Í lokin vil ég svo ítreka að ég er mjög jákvæð gagnvart þeim breytingum sem hér er verið að leggja til.