140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[17:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri ekki gott, ég tek undir með hv. þingmanni hvað þetta snertir. Reyndar væri það svo vont að ég lít á það sem svo — þótt það sé alveg hárrétt ábending hjá hv. þingmanni að ég var ónákvæmur þarna þegar ég talaði um ákvörðunarvald nefndarinnar, ákvörðunarvaldið er hjá ráðherra en hún er ráðgefandi — að svo ráðgefandi eigi hún að vera og svo þungt eigi mat hennar að vega að allar líkur séu á því að það ráði úrslitum.

Nú vil ég leggja áherslu á að sú nefnd sem þegar er starfandi tekur til skoðunar trúfélög sem sækja um skráningu. Þau þurfa líka að fara í gegnum nálaraugað, það er ekkert gefið að félag sem er trúfélag eða kveðst fylgja tiltekinni trúarsetningu standist skoðun nefndar. Við ætlum ekki að fara að leyfa einhver öfgasamtök, veita þeim aðild eða veita þeim hlutdeild í okkar almennu skatttekjum. Við erum að tala um almenn trúfélög og síðan lífsskoðunarfélög sem starfa í samræmi við þau grunngildi sem kveðið er á um í lögunum.

Aðeins varðandi fjöldann aftur þá held ég að það skipti máli að hafa fjöldann skilgreindan í greinargerð. Það má spyrja: Hvers vegna má ekki tíu manna söfnuður fá sín sóknargjöld? Það er vegna þess að á þessum félögum hvíla ákveðnar samfélagslegar skyldur. Þau eiga að rækja ákveðnar samfélagslegar skyldur og verða að sjálfsögðu að hafa burði til að rísa undir þeim.