140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

yfirlýsing viðskiptaþings og fundur með forsvarsmönnum sveitarfélaga.

[10:39]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get sagt það alveg skýrt að mér finnst að atvinnulífið hafi á margan hátt vegið mjög ómaklega að þessari ríkisstjórn. Ég fór yfir það í máli mínu áðan (VigH: Ástæðan …) í hvaða stöðu atvinnulífið er. Við þurfum auðvitað að gera enn betur í þeim málum og erum að því og við munum vinna að því eins og hægt er með atvinnulífinu. Ég tel að mjög margt hafi verið gert hér og að í raun sé hvergi eins mikill gangur í þeim löndum sem við berum okkur saman við og hér á landi að því er hagvöxt varðar og það hlýtur að skipta máli.

Varðandi Norðurland vestra og fund sem óskað hefur verið eftir með mér hefur þeim verið boðið til fundar við embættismenn í ráðuneytinu sem átti að vera fyrsti fundurinn með þessum aðilum og síðan hefði ég komið inn í málið á síðari stigum. En boðað hefur verið til fundar núna á næstu dögum með forsvarsmönnum sveitarfélaga um allt land á vegum forsætisráðuneytisins þar sem við ætlum að fara yfir þann góða gang sem er í áætlun okkar, 20/20 Sóknaráætlun fyrir Ísland, sem sveitarfélögin eru mjög ánægð með. Ég mun sannarlega mæta á þann fund (Forseti hringir.) og vona að forsvarsmenn á Norðurlandi vestra verði líka á þeim fundi.