140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

fjárveitingar til heilbrigðisstofnana.

[10:41]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Um daginn mættu fulltrúar velferðarráðuneytisins á fund fjárlaganefndar og gerðu nefndinni grein fyrir ráðstöfun á fjármunum í svokölluðum ráðherrapotti á sviði heilbrigðismála. Það var mikið til umræðu í fjárlagagerðinni í haust og þar talaði ég meðal annars fyrir því að hætt yrði við þau áform í niðurskurði sem fjárlagafrumvarpið boðaði og að menn gæfu sér tíma til að móta einhverja stefnu til lengri tíma á þessu sviði til að mæta þeim kröfum sem uppi voru varðandi heilbrigðisstofnanir. Á það var ekki fallist og meðal annars báru menn fyrir sig mjög faglega greiningu sem unnin var í samráði við stjórnendur heilbrigðisstofnana um allt land. Því kom það á óvart þegar við fengum upplýsingar um það í desember að fyrir lægju ákvarðanir hjá ráðuneytinu um að ráðstafa úr þessum potti þá þegar í uppbætur vegna húsaleigu ýmissa heilbrigðisstofnana. Það vakti síðan enn meiri athygli þegar við fengum fulltrúa ráðuneytisins á fund um mánaðamótin janúar/febrúar, þar sem upplýst var um fjárveitingar til einstakra stofnana úr þessum sama potti. En eftir stóð að engar bætur eru vegna húsaleigu eða húsnæðiskostnaðar heilbrigðisstofnana og sögðu aðspurðir fulltrúar ráðuneytisins að það yrði leysa í fjáraukalögum.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Eftir hvaða stefnu er unnið? Getum þá ekki reynt að ná með einhverjum hætti saman um að móta stefnuna til lengri tíma áður en lengra er gengið í þessum efnum? Enn fremur vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvort unnið verði með aðra þætti sem lúta að rekstri ýmissa heilbrigðisstofnana, raunar allra í landinu, (Forseti hringir.) í því fari og búa þingið undir að fá fjáraukalagabeiðnir í haust vegna þeirra.