140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

eignarhald á bönkunum.

[10:57]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst út af því sem hv. þingmaður byrjaði á um krónuna, að prísa hana, þá má á margan hátt segja að hún hafi staðið sig vel að því er varðar útflutninginn, útflutningsgreinarnar okkar. Hv. þingmaður verður samt líka að horfa til þess hvað gengisfall krónunnar hefur gert til þess að rýra kjör heimilanna og hækka skuldirnar. Við þurfum líka að skoða það þegar við erum að prísa krónuna, þannig að það eru margar hliðar á því máli. Við erum að borga hér miklu hærri vexti, heimilin í landinu, en við þyrftum að gera, t.d. ef við værum orðin aðilar að Evrópusambandinu. (Gripið fram í: Heyra þetta.) (Gripið fram í: Þetta er bara rangt.)

Varðandi eignarhald á bönkunum get ég alveg sagt mína skoðun í því máli. Í fjárlagagerðinni núna er gert ráð fyrir lítilli sölu að því er varðar eignarhald ríkisins á bönkunum en ég tel að við þurfum að fara mjög varlega í það. Mér finnst ekki koma til greina eins og staðan er núna að fara að selja einhvern verulegan hlut í Landsbankanum, mér finnst það ekki koma til greina. Hlutur okkar í hinum bönkunum tveimur er tiltölulega lítill og við verðum bara að meta það á hverjum tíma.

Við verðum líka að líta til þess þegar spurt er um eignarhald á bönkunum hvernig staðið var að því að endurskipuleggja bankana. (Gripið fram í: Einkavæðing …) Ég held að það hafi tekist mjög vel að endurskipuleggja bankana og hefur sparað ríkissjóði mikla peninga og þar með varið velferðarkerfið eins og aftur og aftur kemur hér upp. (Gripið fram í.)

Varðandi eignarhald á bönkunum, það eru ákveðnar reglur og lög sem þar gilda um og við eigum bara að fara eftir þeim. Ég hef talað fyrir eins miklu gegnsæi og hægt er, bæði að því er varðar þennan þátt og annað. Allt sem lög og reglur heimila í því efni eigum við að gera, en sumt er þannig í bönkunum að það krefst þess að ákveðin leynd sé yfir því (Forseti hringir.) en hún á auðvitað að vera eins lítil og hægt er. (Gripið fram í: Nubo.)