140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

framfærsluuppbót Tryggingastofnunar.

[11:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrst segir hæstv. ráðherra að þetta sé mjög mikilvæg umræða og svo fer hann út í eitthvað sem ég veit ekki hvað ég á að kalla.

Skylduaðild að lífeyrissjóðum var tekin upp 1974 með lögum frá Alþingi og síðan 1980 fyrir alla á Íslandi, alla launþega og sjálfstætt starfandi. Hins vegar var ekkert eftirlit með þessu og á tímabili voru 40 þús. manns sem áttu að greiða í lífeyrissjóð en gerðu það ekki. Eftirlitið kom ekki til fyrr en 1997, áratugum seinna. Þeir sem borguðu skilvíslega á þessum tíma í lífeyrissjóð, hlýðnir lögunum, eru nákvæmlega eins settir ef þeir eru undir 70 þús. kr. og búa einir og aðrir sem svikust um að borga í lífeyrissjóð, í trássi við lög. Það er þetta misræmi sem ég bendi á að við verðum að laga einhvern veginn og ég held að eina leiðin sé sú að hreyfa aftur við þessari framfærsluuppbót.