140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

374. mál
[11:12]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum hér atkvæði um mjög gott mál þar sem verið er að opna fyrir það að ofanflóðasjóður geti greitt kostnað vegna hættumats við náttúruhamfarir. Það er verið að bæta eldgosum inn í þann flokk. Gerð hættumats er ekki fullnægjandi og hefur verið búinn þröngur stakkur vegna takmarkaðs fjármagns til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Við sem höfum starfað á þessum vettvangi teljum að þarna sé um mjög gott skref að ræða, en einnig teljum við að lengra þurfi að ganga, það þurfi að taka fleiri flokka af náttúruvá og opna fyrir greiðslur úr ofanflóðasjóði vegna gerðar viðbragðsáætlana á víðari vettvangi.

Ég legg því til að þetta mál fari aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. og nefndin skoði alveg sérstaklega að útvíkka þetta atriði. Það var ekki leitað eftir umsögnum um frumvarpið. (Forseti hringir.) Það er nauðsynlegt að það sé gert og að þeir aðilar sem best þekkja til í þessum málaflokki verði kallaðir á fund nefndarinnar.