140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

374. mál
[11:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið er þetta hið besta mál sem við framsóknarmenn styðjum jafnframt, en ég vildi líka koma því á framfæri og styð þá ósk að taka málið til nefndar og fjalla aðeins betur um ólíka þætti.

Það hefur komið fram í svörum við fyrirspurnum mínum til ráðherra sem fara með Bjargráðasjóð og Viðlagatryggingu og eins frá hæstv. forsætisráðherra um öll viðbrögð sem verða við eldgosum, til að mynda þeim afleiðingum sem urðu á svæðinu fyrir austan. Það eru alls kyns hamfarir sem menn verða fyrir tjóni af, aurskriður, sjóflóð og flóð í ám sem virðast viðvarandi sem ég held að menn verði að hafa líka skoðun á hvar þeir ætli að koma fyrir. Í viðræðum mínu við þessa ágætu ráðherra hefur verið rætt um að það hafi verið til skoðunar og ég held að nefndin verði einmitt að átta sig á því hvar (Forseti hringir.) hvað stendur út af og í hvaða farveg þau mál eiga að fara áður en við afgreiðum þetta mál einstakt.