140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

21. mál
[11:19]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum að lýsa yfir vilja Alþingis til að koma á reglubundnum heimsóknum til eldri borgara í forvarnaskyni. Þetta er mál sem kemur í upphafi frá norrænni samvinnu, gríðarlega gott mál, og við munum tryggja aukin gæði eldri borgara með því að samþykkja það. Við munum líka spara peninga. Þetta mun tryggja það að fólk geti verið lengur heima.

Ég þakka sérstaklega velferðarnefnd fyrir góða vinnu við þetta mál og talsmanni nefndarinnar, hv. þm. Eygló Harðardóttur, sem hélt utan um það. Mér finnst þetta mál og reyndar annað sem verður líka afgreitt á eftir sýna það og sanna að breytingar á þingsköpum sem við gerðum og urðu til þess að við skipuðum svokallaða talsmenn eða rapportöra fyrir mál eru að skila sér. Ég tel að þingið muni samþykkja miklu fleiri þingmannamál fyrir vikið og þingmenn muni vinna faglegar að málum. Það sýnir sig þannig að ég er mjög ánægð með þetta nýja kerfi og við framsóknarmenn munum styðja þetta góða mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Hlátur í þingsal.]