140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:14]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Mitt hjartans mál er réttlát framtíð og lög nr. 151/2010 eru dæmi um foringjaræðið sem ríkir á Alþingi, foringjaræði sem felst í ofríki meiri hlutans og framkvæmdarvaldsins á þingi. Lögin voru keyrð í gegnum Alþingi með miklum hraða og allar efasemdarraddir meðal þingmanna voru þaggaðar niður. (RM: Þú samþykktir í það í 2. umr.) Ég var ein af þeim sem reyndi að ná fram umræðu um afturvirkni lagafrumvarpsins í þingflokki VG en áhugaleysið var algert meðal fótgönguliða flokksræðisins á Alþingi. (ÓÞ: Þú samþykktir í 2. umr.) Á þessum tíma var ég formaður viðskiptanefndar en frumvörp sem tóku á vanda skuldsettra heimila fóru aldrei í viðskiptanefnd sem ber þó ábyrgð á málefni bankakerfisins.

Mér finnst mikilvægt að geta þess vegna villandi umræðu fjölmiðla að við endanlega afgreiðslu laga nr. 151/2010 greiddi ég ekki atkvæði með lögunum og gekk út úr þingsal til að mótmæla atkvæðagreiðslu (Gripið fram í.) um óklárað mál. (ÓÞ: Ussussuss.) (Gripið fram í.) Nú þurfa skattgreiðendur að bæta heimilum sem voru með gengistryggð lán foringjaræðið og bæta þeim sem misst hafa eigur sínar vegna afturvirkni laga nr. 151/2010.

Ég óttast fjöldamálsóknir í kjölfar dóms Hæstaréttar eða að annað hvert heimili standi í málaferlum við banka og ríkið vegna stökkbreyttra lána, vegna laga sem sett hafa verið eftir hrun og vegna dóma sem fallið hafa til að fá niðurstöðu um fordæmisgildi þeirra.

Frá því að ég kom á þing hef ég varað við því að beina ágreiningi um skuldir heimila og fyrirtækja til dómstóla. Dómstólaleið sem lausn á skuldavandanum er tímafrek og kostnaðarsöm bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild sinni. Dómstólaleiðin elur á sundrungu í samfélaginu og er ekki í samræmi við norræna sáttamódelið. Eitt af einkennum norræna módelsins er að samið er um lausn ágreiningsmála og leikur ríkisstjórnin mikilvægt hlutverk sem sáttasemjari milli ólíkra hagsmunaaðila. Hin svokallaða norræna vinstri stjórn hér á landi hefur þess í stað kosið að ala á ágreiningi milli ólíkra hópa með því að draga taum fjármagnseigenda og saka skuldsett heimili um að vilja hirða lífeyri af gömlu fólki. (BirgJ: Heyr, heyr.) Það ríkir því mikil gremja meðal skuldsettra heimila en 40% þeirra eru tæknilega gjaldþrota. Sífellt fjölgar í þeim hópi og margir hafa neyðst til að flytja af landi brott.

Frú forseti. Nú verðum við stjórnmálamenn að brúa bilið á milli þeirra sem eru með verðtryggð lán og hinna sem tóku gengistryggð lán og hafa fengið leiðréttingu mála sinna. Hættum að afneita skuldavandanum, ala á óeiningu meðal þjóðarinnar og eyðum fordómum gagnvart skuldsettu fólki. Notum dóm Hæstaréttar til að koma á réttlæti og samstöðu meðal þjóðarinnar. Leiðréttum stökkbreytt fasteignalán, afnemum verðtrygginguna og komum á norrænu fasteignalánakerfi í stað þess að ala á sundrungu og búa til nýja sturlungaöld. (BirgJ: Heyr, heyr.)