140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:41]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég verð að segja eins og er að ég er dálítið undrandi á fyrri ræðumönnum mörgum hverjum og þeirri umræðu sem verið hefur hér að undanförnu. Hv. þm. Eygló Harðardóttir segir réttilega að kalla eigi eftir réttlæti. Fólk kallar eftir réttlæti og fólk á rétt á því réttlæti þess sé fullnægt í þessu máli sem öðrum, það er hárrétt.

Af hverju er kallað eftir réttlæti? Á hverjum hefur verið brotið? Brotið hefur verið á fólki, eins og ég fór yfir áðan, vegna þess að fjármálakerfið sem við bjuggum við í allt of langan tíma var dæmt ólöglegt. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda við því með lagasetningu hér á þingi (Gripið fram í.) fólst í því að uppfylla það sem dómstólar kveða á um og reyna að kalla eftir því … (Gripið fram í.) Um það snýst umræðan í dag og við skulum halda okkur við hana.

Viðbrögð stjórnvalda hafa miðast að því að uppfylla réttlæti gagnvart þeim sem málið varðar. Lagasetningin 2010 sneri að því að ná fram réttlæti. Stjórnin þarf ekki að víkja af þeim sökum að hún reyndi að ná fram réttlæti milli skuldara (EyH: Bara erlendu lánin.) í því efni, rétt eins og kallað var eftir.

Mig langar til að spyrja hv. þingmenn, þó að ég viti að þeir geti ekki svarað mér úr ræðustólnum: (Gripið fram í.) Sjá þeir ekki eftir því að hafa ekki stutt frumvarpið sem varð að lögum í desember 2010 (HöskÞ: Lögin voru dæmd ógild.) og varð til þess að lán íslenskra heimila voru færð niður vel á annað hundrað milljónir? Á grundvelli þeirrar lagasetningar voru lánin færð niður vegna þess að hæstaréttardómurinn sem kveðinn var upp sumarið 2010 tók ekki á öllum lánum, hann tók ekki á öllum lánasamningum. Það var Alþingi sem ákvað að gera það með þeim hætti sem lagt var upp með.

Sjá þeir hv. þingmenn ekki eftir því í dag (HöskÞ: Nei, við sjáum ekkert eftir því.) að hafa ekki stutt það frumvarp? Nei, þeir sjá nefnilega ekki eftir því. Þeir (HöskÞ: Ég skal útskýra það.) greiddu atkvæði gegn þeirri leiðréttingu sem frumvarpið (Gripið fram í.) sem varð að lögum hefur síðan leitt til. (Gripið fram í.) Þannig eru nú staðreyndirnar í því máli. Hreyfingin var ein á móti. Það urðu mér mikil vonbrigði að hún skyldi ekki styðja það mikla mál sem þarna var í gangi og leiddi til þess að skuldir íslenskra heimila voru færðar niður um á annað hundrað milljarða kr., því að Hreyfingin hefur kallað hér eftir leiðréttingu á skuldamálum heimila umfram annað og það hefur verið hennar vegferð í þinginu. (Gripið fram í.) Ég átta mig engan veginn (Gripið fram í.) á því af hverju hún gerði það ekki.

Það er hins vegar hárrétt sem kom fram í máli (Gripið fram í.) hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar áðan, (Gripið fram í.) það er gríðarleg óvissa vegna þessa dóms og afleiðinga hans vegna þess að hann er ekki skýr frekar en dómurinn var sumarið 2010. (Gripið fram í.) Hann er óskýr um hverjar afleiðingarnar verða og það er hlutverk þessarar samkomu hér að bregðast við því með einhverjum hætti, sjá til þess að gætt verði jafnræðis milli þeirra sem í hlut eiga hvað samninga varðar, rétt eins og gert var haustið 2010, og að kanna fordæmisgildi þessa dóms þvert á orðalag samninga, eins og ævinlega hafa verið viðbrögð stjórnvalda hingað til, að bregðast við niðurstöðum Hæstaréttar í þeim málum sem hann kveður upp og reyna að gæta (Forseti hringir.) jafnræðis á milli þeirra sem í hlut eiga. Það verður að gera hér eftir sem hingað til.