140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:50]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstiréttur hefur úrskurðað að fjármálastofnunum hafi verið óheimilt að krefja lántakendur sem staðið höfðu í skilum með afborganir af gengistryggðum lánum og fengið fullnaðarkvittun þar um um viðbótargreiðslu vegna endurútreiknings vaxta. Kjarninn í dómi gærdagsins er sá að Hæstiréttur kveður upp úr með það að afturvirkni hvað varðar vaxtaútreikning er óheimill við aðstæður eins og þessar þegar lántakandi hefur staðið í skilum og fengið um það fullnaðarkvittun án fyrirvara af hálfu fjármálastofnunar. Niðurstaðan er mikið gleðiefni fyrir þau heimili og aðra skuldara sem hér um ræðir og það er ljóst að þeir aðilar sem tóku þessi lán og stóðu í skilum með greiðslur af þeim eiga nú rétt á endurgreiðslum sem munu létta greiðslubyrði þeirra.

Þessi dómur snýst um húsnæðislán einstaklinga en ég tel einsýnt og fæ ekki annað séð en að grundvallaratriði hans hljóti einnig að eiga við um önnur lán, svo sem bílalán einstaklinga og lán til fyrirtækja. Öðru máli kann hins vegar að gegna um þá skuldara sem ekki stóðu í skilum með sínar greiðslur. Um þá er óvissa, sömuleiðis hvort dómurinn hefur áhrif á stöðu þeirra lántakenda sem hafa verið með sín lán í frystingu.

Nú er afar mikilvægt að greiða sem allra fyrst úr óvissu um það hve víðtækt fordæmisgildi þessi dómur gærdagsins hefur. Í ljósi reynslunnar er afar hæpið að Alþingi blandi sér með virkum hætti inn í það verkefni. Ég tel það reyndar ómögulegt og útilokað. Það hlýtur að verða dómstólanna að kveða upp úr með það.

Í öðru lagi þarf á allra næstu dögum að fá eins skýra mynd og kostur er af því hvaða áhrif dómur Hæstaréttar hefur á fjármálakerfið miðað við mismunandi niðurstöðu varðandi fordæmisgildi dómsins. Við á Alþingi verðum hins vegar eftir þennan dóm að svara þeirri stóru spurningu hvort rétt sé gefið í úrvinnslu skuldamála fyrirtækjanna og heimilanna eftir hrun þegar sá minni hluti lántakenda sem tók gengistryggð lán fær verulegar leiðréttingar á sínum málum í gegnum dómskerfið, á sama tíma og sá stóri meiri hluti lántakenda sem tók verðtryggð lán á toppi fasteignabólunnar og situr eftir með afleiðingar af stórfelldri gengislækkun íslensku krónunnar í tengslum við bankahrunið situr eftir með mun verri stöðu.

Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi þurfi nú að nota þetta tækifæri til að bregðast við þeim ójöfnuði sem fer vaxandi og mun fara vaxandi með þessum dómi Hæstaréttar og skoða allar leiðir til að skapa hér samfélagssátt um skuldamál heimilanna. Það gerum við best með nánara samstarfi milli allra þingflokka en gert hefur verið fram að þessu.