140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:53]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í því máli sem hér er til umræðu er vísað í Lýsingardóminn svokallaða, nr. 471/2010. Í honum kom fram að í því tiltekna máli sem fjallaði um vanskil og riftun á samningi ætti að miða við vexti Seðlabankans, samanber 3. gr. laga nr. 38/2001. Í kjölfarið á þeim dómi ákvað ríkisstjórnin að bregðast við með lagasetningu nr. 151/2010.

Það er rangt að halda því fram að með þessari lagasetningu hafi verið um að ræða réttarbætur til almennings eins og ítrekað hefur verið haldið fram hér í dag. Það er einfaldlega rangt. Af hverju skyldi það vera rangt? Jú, vegna þess að í því tilviki sem samningarnir náðu aftur fyrir gildistöku laganna, sem áttu náttúrlega við langflesta samningana, voru þessir vextir Seðlabankans óhagstæðir lántakendum. Þess vegna stíga bankarnir fram í dag og segja að þeir þurfi að endurreikna og skila fjármunum aftur til þeirra sem tóku gengistryggðu lánin.

Það er líka rangt að halda því fram að þetta sé högg fyrir fjármálakerfið. Fjármálakerfið hafði hins vegar tekið til sín fjármuni sem það átti ekki að fá samkvæmt lögum. Það sem við erum að ræða í dag snýst um afturvirkni laga sem voru sett á Alþingi. Hæstiréttur segir að ekki sé hægt að setja slík lög með jafníþyngjandi hætti og var í því máli sem hér um ræðir. Á því ber (Forseti hringir.) enginn annar ábyrgð en ríkisstjórn Íslands og ég verð að segja fyrir mitt leyti að það er (Forseti hringir.) afar sorglegt að horfa á fyrrverandi og núverandi ráðherra halda því fram (Forseti hringir.) að þessi lagasetning hafi verið Íslendingum og skuldurum til hagsbóta. Það er einfaldlega rangt og ég vona að hæstv. ráðherra Steingrímur J. (Forseti hringir.) Sigfússon leiðrétti það í ræðu sinni á eftir.