140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Undarlegustu ræðu dagsins á líklega hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sem kom með furðulega afsökun fyrir því að hafa ekki mætt í atkvæðagreiðslu. Sá ágæti þingmaður boðar ekki beint bjarta framtíð fyrir skuldug heimili í landinu, það verður að segjast eins og er í þessum ræðustól.

Frú forseti. Hver ber ábyrgð á þessu máli? Að sjálfsögðu ríkisstjórnin. Það er ríkisstjórnin sem ber þá ábyrgð að vera dæmd núna fyrir að fara gegn stjórnarskrá. Henni ber vitaskuld að axla þá ábyrgð. Flestir þingmenn í stjórnarandstöðunni voru búnir að vara við því að fara þessa leið, vara við því sem mundi gerast. Hinir sömu þingmenn eru flestir, sér í lagi í Framsóknarflokki, Hreyfingu og óháðir þingmenn, búnir að segja að það sé svigrúm til að leiðrétta skuldir heimilanna — sem betur fer. Það er kannski það besta við þennan dóm að í framhaldinu er búið að staðfesta að það svigrúm er til staðar. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra viðurkenndi það áðan og upplýsti okkur um það. Við hljótum því að ætlast til þess að þetta svigrúm, þetta pláss og þetta rými verði nýtt til að hjálpa fleirum en þarna er um að ræða.

Bankarnir hafa þurft að greiða 140 og eitthvað milljarða vegna ólöglegra samninga, vegna ólöglegra lána. Hvað með þá sem eru með lögleg lán, sem tóku verðtryggð lán í góðri trú? Á ekkert að gera fyrir þá? Nú er komin staðfesting á því að það er svigrúm. Framsóknarflokkurinn hefur varað við þessu alla tíð en við höfum líka lagt fram tillögur. Frá 2009 höfum við ítrekað lagt fram tillögur í þinginu fyrir hæstv. ríkisstjórn um hvernig megi taka á skuldum heimilanna. Á það hefur ekki verið hlustað, því miður.

Mér þykir vænt um og ég vil hæla ræðu hv. þm. Skúla Helgasonar áðan sem nefndi það að nú ættu menn að taka höndum saman og finna lausn á þessu máli. Ég vona að það sé fyrsta skrefið frá stjórnarflokkunum til að vilja tala við stjórnarandstöðuna um það hvernig megi leysa þetta mál.

Frú forseti. Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin keyrði þetta frumvarp í gegn á miklum hraða þrátt fyrir öll þau varnaðarorð sem féllu í þessum sal. Hún keyrði þau í gegn, hún ber ábyrgð á þessu og slík ríkisstjórn verður að víkja. Hún á að axla ábyrgð og slík ríkisstjórn (Forseti hringir.) verður að víkja.