140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[13:54]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég fari aðeins í gegnum svar hæstv. ráðherra þá er svarið já, ráðherrann er enn þá sammála því sem kom fram í ályktun þingmannanefndarinnar sem allir þingmenn sem sæti eiga á Alþingi samþykktu, að fara þyrfti fram sjálfstæð og óháð rannsókn á vegum Alþingis sem taki til tímabilsins frá 1997 til dagsins í dag. Ráðherra leiðréttir mig í seinna andsvari sínu, ef ég hef misskilið hana.

Ég vil síðan ítreka viðaukann við spurningu mína um lýðræðislegt kjör. Mín afstaða er sú að atkvæðisréttur eigi fyrst og fremst að byggjast á einstaklingnum en ekki peningunum sem viðkomandi á. Ég hef líka verið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að standa vörð um samtrygginguna sem felst í því lífeyrissjóðakerfi sem við erum með nú í dag.

Því vil ég ganga eftir svari við þessum spurningum, hvort ráðherrann hafi tekið afstöðu til þess hvernig atkvæðum eigi að vera háttað þegar kosið er í stjórnir lífeyrissjóðanna. Vonast ég til að fá skýrt svar frá hæstv. ráðherra.