140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[13:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu, en ég ætla að spyrja hana um stjórn LSR, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Samkvæmt 13. gr. laga um sjóðinn, sem eru sérlög sem ganga lengra og framar lögum um lífeyrissjóði almennt, skal stjórnin hækka iðgjald til sjóðsins ef tryggingafræðileg athugun leiði í ljós að það dugar ekki til greiðslu skuldbindinga. Þetta hefur ekki verið gert. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það geti verið að fulltrúar fjármálaráðherra í stjórn LSR hafi í gegnum árin staðið gegn slíkri hækkun á móti fulltrúum launþega, þar á meðal hæstv. innanríkisráðherra sem var formaður stjórnarinnar, Ögmundi Jónassyni, um að hækka þetta iðgjald? Þetta er náttúrlega ekkert annað en skattheimta því að þessar byrðar lenda á skattgreiðendum seinna meir ef þetta er ekki hækkað. Ef iðgjaldið er hækkað lendir það hvort sem er á skattgreiðendum, því að þá þarf ríkið að borga meira strax, en alla vega stendur þá sjóðurinn undir sér.

Ég vil síðan spyrja hæstv. ráðherra. Hann segir að tap lífeyrissjóðanna hafi verið svipað og erlendra sjóða, en hann gleymdi að geta þess að íslensku sjóðirnir eru mældir í krónum og krónan hefur fallið gífurlega, en erlendar eignir sjóðanna hafa tvöfaldast í verði í því samhengi. Þannig að höggið er miklu meira mælt í evrum.

Í sambandi við þessa umræðu um stjórnir lífeyrissjóða vil ég benda á að fyrir Alþingi liggur frumvarp, og er víst komið til nefndar, um að sjóðfélagar eigi sjóðina, að þeir fái upplýsingar um verðmæti réttinda sinna í sjóðnum, sem ég held að sé mikilvægast, og að þeir kjósi stjórn. Þetta liggur allt fyrir Alþingi og í september síðastliðinn voru greidd atkvæði um breytingartillögu frá mér sem var kolfelld. Ég einn greiddi því atkvæði.