140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi tapið. Erlendar eignir sjóðanna standa nokkurn veginn í stað eftir hrun þrátt fyrir að myntin sem þær eru í hafi nánast tvöfaldast í verði. Það er vegna þess að menn töpuðu þar líka, en þær standa í stað og halda þannig uppi eignum sjóðanna sem væri ekki ef þær væru mældar í evrum. Þannig að höggið er miklu meira en kemur fram í reikningum sjóðanna og er miklu meira en þessi 22%.

Varðandi stjórn LSR er það mjög áhugaverð spurning, herra forseti, hver beri ábyrgð þegar stjórnin ákveður að fara ekki að lögum, sérlögum um sjóðinn, og koma ríkissjóði í 47 milljarða halla. Hver er ábyrgð þeirra sem sátu í stjórninni? Hver er ábyrgð þeirra sem greiddu hugsanlega atkvæði gegn því, eru þeir stikkfrí? Eru það starfsmenn ráðuneytisins sem eru í sjóðnum sem bera ábyrgð á þessu, að hafa ekki farið að lögum, eða er það ráðherrann? Þetta finnst mér að þurfi að skýra vegna þess að við erum að tala um mjög mikla hagsmuni, við erum að tala um mjög háar upphæðir. Og við erum líka að tala um það að A-deildin átti að vera sjálfbær. Það er búið að svíkja það strax á fyrstu árunum sem hún starfar, þannig að það er mjög slæmt.

Ég vil geta þess að allt tap hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er ekkert annað en tap skattgreiðenda vegna þess að annaðhvort á að hækka iðgjaldið í A-deildinni eða að bæta þarf stöðu B-deildarinnar beint með ríkisframlögum, hvort tveggja borga skattgreiðendur á meðan þeir þurfa að hlíta tapi á almennu lífeyrissjóðunum.