140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:22]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson útlistaði í stórum dráttum framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins um uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins, eða lífeyriskerfisins vil ég frekar kalla það vegna þess að ég deili ekki þeirri skoðun að við eigum að hafa lífeyrissjóðakerfi. Ég vil heldur lífeyriskerfi. Ég er komin hingað til að spyrja hv. þingmann út í fullyrðinguna um að við þurfum að hafa hér lífeyrissjóði sem standi undir lífeyri fólks. Þetta er að mínu mati óraunhæf framtíðarsýn vegna þess að ef við setjum ekki lög um að laun dugi til framfærslu munu iðgjaldagreiðslur af launum sem ekki duga til framfærslu alls ekki tryggja lífeyri sem dugar til framfærslu. Ég spyr því hv. þingmann: Er hann sammála mér um nauðsyn þess að það þurfi að setja lög um að laun á Íslandi dugi til framfærslu til þess að hafa hér bara eitt stórt lífeyrissjóðakerfi?

Ég vil jafnframt geta þess að ég tel óraunhæfa framtíðarsýn að byggja bara sjóðakerfi hér vegna þess að það mun krefjast þess að við séum með lífeyrissjóði sem eru ekki aðeins 140% af stærð hagkerfisins heldur margfalt stærri sjóði. Ég geri ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að leysa vandamálið við að finna arðbærar tryggar fjárfestingar með því að leyfa fjárfestingar erlendis, en ég spyr þá hv. þingmann: Þegar lífeyrissjóður er orðinn svona stór, þó að hann geti fjárfest erlendis, er ekki hætta á að eignaverð í landinu hrynji þegar stórir árgangar lífeyrisþega fara að taka út lífeyrinn sinn? Hvernig ætlar hv. þingmaður að leysa það vandamál? Það er líka öldrunarvandamál í lífeyrissjóðakerfinu, það er ekki bara í (Forseti hringir.) almannatryggingakerfinu.