140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er stórt spurt hér um mörg mikilvæg álitaefni. Eitt er það hvort við getum með raunhæfum hætti byggt upp almenn lífeyrisréttindi ef við höfum ekki lög um lágmarkslaun sem tryggja nauðsynlega framfærslu. Ég tel að með þessari áætlun séum við að nálgast vandann frá röngum enda. Við munum ekki tryggja góð lágmarkslaun með því að setja það í lög. Við gerum það með því að skapa atvinnulífinu góð skilyrði og vera með verðmætaskapandi framleiðslu í landinu. Þannig munum við tryggja að lægstu laun í landinu séu góð, tryggi fólki góða afkomu og yfir lengri tíma góð lífeyrisréttindi.

Ég tel líka að það væri fullkomið glapræði að fara að ráðum hv. þingmanns og hætta sjóðsuppbyggingunni fyrir lífeyrisréttindin. (LMós: Það er ekki …) Ég skildi hv. þingmann þannig að hún væri annaðhvort að mæla fyrir einhvers konar gegnumstreymiskerfi eða væri að minnsta kosti á móti lífeyrissjóðahugsuninni. Ég tel mjög mikilvægt, ég vil að það sé skýrt af minni hálfu, að við leggjum fyrir í þessum efnum. Við eigum að nota starfsævina til þess að leggja fyrir til efri ára til að við eigum við greiðan aðgang að réttindum sem duga fyrir framfærslu þegar við komum af vinnualdri.

Það er margt annað sem hægt væri að ræða hér í þessu samhengi. (LMós: Öldrunarvandamálið.) Já, hérna er jafnframt nefnt öldrunarvandamálið. Við skulum berjast gegn því með því að halda áfram að byggja upp góð lífsskilyrði í landinu þannig að fólk hætti að flytja héðan og það verði eftirsóknarvert að eiga börn á Íslandi, ala hér upp nýja stóra, unga kynslóð (Forseti hringir.) sem mun halda áfram að auka verðmæti í landinu en gefst ekki upp við það verkefni.