140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:26]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki tekist fram til þessa, þrátt fyrir afar góð skilyrði í atvinnulífinu, að tryggja að hér séu greidd laun sem duga til framfærslu. Þá vísa ég til tímabilsins fyrir bankahrun. Það sem þarf að gera til að tryggja laun sem duga til framfærslu er bæði að hækka laun og draga úr kostnaði, t.d. vegna húsnæðis og bifreiðar sem nemur um helmingi af útgjöldum heimilanna.

Hvað varðar mína sýn á lífeyriskerfið vil ég hafa blandað kerfi. Ég vil hafa sjóðsmyndunarkerfi til að fá fólk til að leggja fyrir og safna fyrir efri árunum. Ég geri mér þó grein fyrir göllum þess kerfis og að það leysir ekki öldrunarvandamálið, það leysir ekki þann vanda að kerfið þarf að búa við fjárfestingarmöguleika sem eru arðbærir og stöðugleika í efnahagslífinu. Því miður er kapítalisminn eins og við höfum byggt hann upp ekki mjög stöðugur þannig að hér koma alltaf einhverjar hagsveiflur. Þess vegna þurfum við líka almannatryggingakerfi til hliðar við sjóðsmyndunarkerfið sem tryggir lágmarksframfærslu. Það dregur að vísu úr þörfinni á þessum lágmarkslífeyri í gegnum almannatryggingakerfið ef hér er hægt að tryggja laun sem duga til framfærslu.