140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:28]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður segir að vegna þess að þetta er í raun og veru óviðráðanlegt verkefni þurfum við að hafa almannatryggingakerfið til hliðar. Þá segi ég bara á móti: Þá erum við sem sagt að lofa réttindum sem við getum ekki staðið við, þá erum við með ósjálfbært kerfi. Þá erum við einfaldlega með kynslóð á efri árum sem nýtur réttinda sem við höfum ekki efni á. Það er einmitt það sem er að gerast svo víða í Evrópu, menn hafa lofað réttindum langt upp í ermina á sér þannig að ríkin eru að sligast undan því og fara nánast á hausinn. (Gripið fram í.) Mér finnst það einfaldlega ekki góð framtíðarsýn.

Við höfum hins vegar verið að vinna í hina áttina Við höfum lokað ósjálfbæru kerfunum, við höfum gert það, við lokuðum B-deildinni á sínum tíma, þ.e. við hættum að taka við nýjum félögum inn í þá deild. Stofnun A-deildarinnar var viðleitni í þá átt að komast yfir í sjálfbært kerfi. Það hefur verið bent á að þar er gatinu ekki að fullu lokað og það er alvarlegt. Í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins var stöðugt verið að leggja fyrir inn í þessi lífeyrisréttindi og reyna að stoppa upp í það gat. Núverandi ríkisstjórn hefur horft fram hjá því vandamáli og fundið aðrar leiðir en þá að leggja peninga inn í kerfið, hún hefur búið sér til teygju til að komast hjá því að takast á við vandann. Á þetta benti hv. þm. Pétur Blöndal fyrr í umræðunni. Það er alvarlegt.

Við verðum að taka á þessum málum af ábyrgð, ekki lofa réttindum sem við getum ekki staðið undir. Við eigum ekki að tryggja fólki réttindi á efri árum með því að segja bara sem svo: Það verður þá ungu kynslóðarinnar þegar að því kemur að standa undir loforðunum sem við veitum í dag. Við verðum að hætta þessari hugsun. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um að við þurfum að auka sjálfbærnina í kerfinu og að grunnhugsunin sé sú að starfsævin eigi að duga til að byggja upp réttindi sem duga fyrir framfærslu á efri árum.

Almannatryggingakerfið (Forseti hringir.) er síðan fyrir hina, þá sem höfðu aldrei tækifæri, þá sem lentu í slysi, örorku, fötlun og öðrum áföllum á lífsleiðinni (Forseti hringir.) sem komu í veg fyrir að þeir gætu byggt upp þessi réttindi.