140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ræðu hans. Ég er með þrjár spurningar sem ég vil beina til þingmannsins í framhaldi af framsögu hans.

Í fyrsta lagi: Er hægt að lofa raunverulega verðtryggðum lífeyri í lögum og standa samhliða við kröfur um tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðanna?

Í öðru lagi: Hvenær varð raunávöxtun lífeyrissjóðanna jákvæð? Til þess að auðvelda þingmanninum að svara þessari spurningu ætla ég að gefa honum tvo svarmöguleika. A: Þegar almennri verðtryggingu var komið á. Eða B: Þegar vaxtafrelsi var komið á hér á landi.

Í þriðja lagi: Er formaður Sjálfstæðisflokksins sammála ályktun síðasta landsfundar flokksins um að færa beri niður höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og að draga beri jafnt og þétt úr áhrifum verðtryggingar?