140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er best að taka þessar spurningar í öfugri röð.

Varðandi landsfundarályktunina, sem vísað er til, og almenna niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra lána sagði ég það eitt að það yrði aldrei gert þannig að það bryti gegn stjórnarskrá. Ég vakti athygli á því að í dómi Hæstaréttar frá því í gær væru vísbendingar um að dómstólar á Íslandi mundu ávallt standa vörð um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ég fagna því í sjálfu sér.

Ég vil hins vegar leita allra leiða til að rétta stöðu þeirra sem eru með verðtryggð lán og ráða ekki við þau. Ég hef alltaf verið talsmaður þess að við eigum að leita allra leiða til að rétta stöðu þeirra og skapa hvata fyrir fólk til að standa í skilum og halda áfram að byggja sér og sínum bjarta framtíð. Það verður ekki gert með því að halda fólki í gíslingu of hárra skulda og í yfirveðsettum eignum um langa framtíð.

Hv. þingmaður segir að þetta hafi alltaf snúist um vaxtafrelsi. Ég er ekki sammála því. Þetta hefur alltaf snúist um verðmætasköpun, það er það sem þetta hefur snúist um. Þetta hefur snúist um það að við værum að skapa verðmæti í landinu, að hér væri hagvöxtur. Það verða ekki til lífeyrisréttindi fyrir það eitt að vextir í landinu séu frjálsir. (Gripið fram í.) Það verða ekki til neinar nýjar eignir í lífeyriskerfinu ef það er engin verðmætasköpun annars staðar í hagkerfinu. Þannig er það.

Á verðbólgutímum, þegar hér var ekkert nema opinber rekstur og eitthvert sjóðasukk, var ekki þess að vænta að sterk staða lífeyrisréttinda í landinu mundi byggjast upp vegna þess að uppbygging varð hvergi annars staðar. Forsenda þess að við byggjum hér til framtíðar öflug lífeyrisréttindi er að við höldum áfram verðmætasköpun í landinu. Það er grundvallaratriði.

Varðandi það að ég hafi sagt að endurskoða þyrfti verðtrygginguna á lífeyrisréttindum er ekki rétt eftir mér haft. Ég sagði að við gætum alveg verðtryggt lífeyri, ég sagði að við gætum það, en ég sagði að það væri kannski fullbratt að vera jafnframt með það (Forseti hringir.) lögbundið að réttindin ættu að ávaxtast um 3,5% á ári og við ættum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort það væri of bratt markmið.