140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:54]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum málefni lífeyrissjóðanna. Undirstaðan undir þeirri umræðu er ný skýrsla Landssamtaka lífeyrissjóða um úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins.

Helstu niðurstöðurnar í skýrslunni eru þær að lífeyrissjóðir landsins töpuðu tæplega 500 milljörðum vegna hrunsins. Rannsóknin nær yfir tímabilið 2005–2009 og er sagt að um 20–25% af eignum sjóðanna hafi tapast í aðdraganda hrunsins í íslenskum krónum en þegar það er umreiknað yfir í evrur er talað um 50% af eignunum hafi glatast.

Þetta eru ekki hvaða peningar sem er. Þetta eru peningarnir sem við tókum ákvörðun um á Alþingi. Við settum skýran ramma um að það væri lagaskylda að borga í þessa sjóði, að allir launþegar, líka sjálfstæðir atvinnurekendur, ættu að borga í þessa sjóði, fyrst af grunnlaunum sínum og svo af heildarlaunum sínum til að tryggja velferð fólks þegar það verður gamalt eða þegar það getur ekki lengur tekið þátt á vinnumarkaðnum.

Þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis lá fyrir fjallaði þingmannanefndin um lífeyrissjóðina og þær upplýsingar sem þar komu fram um hlutverk þeirra. Við lögðum fram ályktun okkar sem var síðan samþykkt óbreytt 63:0. Þar sagði að við teldum rétt að lífeyrissjóðirnir yrðu rannsakaðir sérstaklega af Alþingi. Þegar höfðu borist upplýsingar um að til stæði hjá lífeyrissjóðunum að fara í sjálfstæða rannsókn. Við tókum samt ákvörðun um að leggja til að farið yrði í sjálfstæða, óháða rannsókn á vegum Alþingis. Aðeins tvær tillögur voru um rannsókn í ályktun þingmannanefndarinnar, annars vegar á sparisjóðunum og hins vegar á lífeyrissjóðunum.

Við vildum fara lengra aftur í tímann í rannsókn á lífeyrissjóðunum og sparisjóðunum en til áranna í kringum hrunið. Það var vísvitandi ákvörðun sem tekin var og rædd í þingmannanefndinni. Við ræddum hvaða tímabil ætti að rannsaka. Niðurstaðan var sú að fara aftur til ársins 1997 hvað lífeyrissjóðina varðar því að þá var sett heildstæð rammalöggjöf. Ákveðið var að skoða reynsluna af löggjöfinni og læra af henni, ekki bara af hruninu heldur heildarreynslunni.

Ég hef í ljósi þess lagt fram þingsályktunartillögu sem er í samræmi við lög um rannsóknarnefndir sem við samþykktum á Alþingi eftir árið 2011. Hún fjallar um að við eigum að fara í sjálfstæða, óháða rannsókn og skipa þriggja manna rannsóknarnefnd sem rannsaka á starfsemi lífeyrissjóðanna frá 1997–2011. Hún fær það hlutverk að varpa sem skýrustu ljósi á starfsemi lífeyrissjóðanna á því tímabili, þar með talið fjárfestingarstefnu, stjórnun, stefnumótun, ákvarðanatöku, áhættumat, endurskoðun, eftirlit, markaðsáhrif, tryggingafræðilega stöðu og tengsl við atvinnulífið, verkaklýðshreyfinguna og stjórnmálamenn. Nefndin á að bera saman laga- og starfsumhverfi íslenska lífeyrissjóðakerfisins við lífeyrissjóði í nágrannalöndunum og leggja fram tillögu til úrbóta, þar með talið laga- og reglugerðarbreytingar. Hún á að leggja mat á ábyrgð og aðkomu stjórnsýsluaðila og ábyrgð og aðkomu einstakra ráðherra að einstökum ákvörðunum og/eða eftirliti með lífeyrissjóðunum. Nefndin á jafnframt að gera ráðstafanir til að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á refsiverðri háttsemi eða brotum á starfsskyldum og jafnframt að gera grein fyrir þeim málum í skýrslu sinni til Alþingis.

Þar sem ég vissi að þessi vinna væri í gangi og þar sem ég veit að heilmikið hefur verið skrifað um lífeyrissjóðina okkar taldi ég að rannsóknarnefndin þyrfti skemmri tíma en áður hefur tíðkast til að skila niðurstöðum sínum og var því miðað við skiladag 1. janúar 2013.

Þess vegna verð ég að segja að það kemur mér eilítið á óvart að það virðist vera eitthvert hik á mönnum gagnvart því að fara í þessa rannsókn sem Alþingi var þó búið að samþykkja. Við erum búin að segjast ætla að gera þessa rannsókn. Frá því að við samþykktum það höfum við að vísu samþykkt um lög um rannsóknarnefndir og í þeim lögum eru ákveðin skilyrði fyrir því hvernig slík ályktun á að hljóma. Tillaga mín er því fyllilega í samræmi við lög um rannsóknarnefndir. Það er sama ferli og við þurftum að fara í gegnum varðandi rannsókn á sparisjóðunum. Menn tala um að hægt sé að fela stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni að fara í gegnum þessa skýrslu og vega og meta hvað nauðsynlegt sé að gera.

Það situr gott fólk í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en hún er gjörsamlega að drukkna í verkefnum. Við dælum þangað inn öllum þeim skýrslum sem koma frá eftirlitsstofnunum sem heyra undir Alþingi. Við erum líka búin að setja inn eitt stærsta verkefni sem nokkur nefnd getur tekist á við, sem er heildarendurskoðun á stjórnarskrá Íslands. Við erum ekki að tala um breytingar á einhverjum einstökum ákvæðum, við erum að tala um heildarendurskoðun á stjórnarskrá Íslands, grunnlögum okkar allra. Þar inni er stórt mál sem varðar ýmsa og sem fólk hefur miklar áhyggjur af og hefur það tekið mikinn tíma í vinnu nefndarinnar, það er hið svokallaða landsdómsmál. Auk þess ætlum við að bæta við vangaveltum um hvort við eigum að fara í áframhaldandi rannsókn á lífeyrissjóðunum þrátt fyrir að við séum þegar búin að álykta um að gera það og að við förum þá aftur til ársins 1997.

Lífeyrissjóðirnir skiluðu ekki bara neikvæðri raunávöxtun í kringum hrunið. Þeir gerðu það líka í kringum árið 2000. Lífeyrissjóður verkfræðinga er ekki fyrsti lífeyrissjóðurinn sem tapar miklum peningum. Fleiri lífeyrissjóðir hafa tapað miklum peningum á þessu tímabili þannig að ég held að það sé mjög brýnt að við förum af stað með rannsóknina, skoðum málið heildstætt og bregðumst við þeim athugasemdum sem fram komu í skýrslunni frá þeirri nefnd sem Hrafn Bragason leiddi. Þar er bent á að sjálfstæð rannsóknarnefnd á vegum lífeyrissjóðanna, hvaða fyrirtækja sem er, frjálsra félagasamtaka eða einstaklinga, geti aldrei haft sömu valdheimildir og rannsóknarnefnd á vegum Alþingis. Það sé algerlega á hreinu. Hún geti ekki kallað fólk til vitnaleiðslu og hún geti ekki farið á staðinn og nálgast gögn sem tengjast rannsókninni. Það er eitt af því sem við unnum mjög vel að þegar við samþykktum lög um rannsóknarnefndir, að tryggja að rannsóknarnefndir á vegum Alþingis hefðu nægilega víðtækar valdheimildir til að upplýsa raunverulega um mál. Að sama skapi sögðum við: Við skulum ekki fara í svona rannsóknir við hvaða tækifæri sem er, þær eru íþyngjandi fyrir þá sem fyrir þeim verða vegna þess að við veitum nefndunum svo miklar valdheimildir.

Þetta voru þær tvær tillögur sem fram komu í áliti þingmannanefndarinnar sem við töldum svo brýnar, mikilvægar og svo umfangsmiklar að við mundum geta lært af þeim. Þetta snýst ekki endilega um að við þurfum að finna einhverja sem eiga að axla ábyrgð, ein helsta ástæðan fyrir því að ég samþykkti að fara í rannsókn á Íbúðalánasjóði var að ég vildi hafa rannsóknina þar víðtækari en um leið væri aðalatriðið að fá fram upplýsingar sem gætu gert það að verkum að við gætum raunverulega lært af því sem við gerðum og þar með mótað starfsumhverfi og lagaumhverfi utan um svo mikilvæga starfsemi sem starfsemi lífeyrissjóðanna er.

Ég er ekki þar með að segja að það séu ekki ýmsir lærdómar sem felist í skýrslunni frá lífeyrissjóðunum. Þær upplýsingar sem koma þar fram vekja upp svo margar spurningar um það kerfi sem við höfum núna og það kerfi sem við ættum að vera með. Við teljum okkur vera ansi sérstök og hvað lífeyrissjóðakerfið varðar og raunar þær stærðir sem tengjast lífeyrissjóðunum erum við að mörgu leyti mjög sérstök.

Við erum mjög ung þjóð. Við byrjum mjög snemma á almennri sjóðsöfnun. Við förum mjög seint á eftirlaun, við vinnum mjög mikið og atvinnuþátttaka er mikil. Að sama skapi er lífaldur okkar mjög hár og þess vegna er tíminn sem fólk þiggur eftirlaunagreiðslur mjög langur. Það eru 16,8 ár að meðaltali hjá körlum og 19,2 ár að meðaltali hjá konum. Við höfum tekið ákvörðun um að fara út í almenna sjóðsöfnun og það eigi að vera undirstaðan í kerfinu okkar. Við erum með gegnumstreymiskerfið, síðan erum við með almenna lífeyrissjóðakerfið og svo ákveðum við að hvetja til séreignarsparnaðar. Allt það gerum við í þessu „míní-samfélagi“, í smáríki þar sem íbúarnir eru um 330 þúsund talsins og við ætlum að safna gífurlega miklum peningum. Þrátt fyrir hrunið eru um 2.000 milljarðar í eigu lífeyrissjóðanna í dag og við ætlum að festa þá peninga að stórum hluta á grunnum og takmörkuðum fjármálamarkaði sem er hér á Íslandi.

Við erum svo fá. Staðan er meira að segja sú í dag að við búum við gjaldeyrishöft. Kauphöllin okkar er ekki vængbrotin, hún er margbrotin hvað stöðuna þar varðar. Nú er meira að segja farið að neyða fyrirtæki til að vera skráð í Kauphöllinni, fyrirtæki sem ekki vilja vera skráð í Kauphöll Íslands eru skráð þar gegn vilja þeirra. Forsenda fyrir því að maður geti verið með sjóðsöfnunarkerfi er ákveðin dýpt fjármálamarkaðar. Það kemur meðal annars fram í skýrslunni að spurning sé um hvort lífeyrissjóðirnir ættu kannski meira og minna að fjárfesta í útlöndum. Norðmenn, sem nýta olíusjóð sinn, byggja hann þannig upp að hann fjárfestir bara í útlöndum svo hann hafi sem minnst áhrif á efnahagslífið innan lands.

Kerfið okkar er ákveðin samtrygging en ég hef stundum velt því fyrir mér hvort við höfum þróað kerfið ekki bara út í samtryggingu varðandi sjóðfélaganna heldur sé það líka orðið einhvers konar samtrygging þeirra hagsmuna sem snúa að lífeyrissjóðunum, samtrygging atvinnurekenda, verkalýðshreyfingarinnar og stjórnmálanna. Í dag sjáum við til dæmis hversu gífurleg völd ákveðnir einstaklingar hafa, sem enginn veit reyndar hverjir eru eða hvernig þeir enduðu í þeim stöðum sem þeir eru í. Þeir taka ákvarðanir um framtíð einstakra fyrirtækja, hvort byggja eigi nýjan spítala og um vegaframkvæmdir. Þeir taka ákvarðanir um svo ótrúlega margt og í mörgum tilvikum höfum við ekki hugmynd um hverjir þessir menn eru.

Ég hef líka velt mjög mikið fyrir mér þeirri sátt sem náðist á sínum tíma um að í flestum lífeyrissjóðunum væru helmingaskipti á milli annars vegar verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnurekenda þar sem reglulega er skipt um formennsku þar á milli. Ég hef hugsað um þá ólíku hagsmuni og hvort hagsmunir þeirra séu farnir að renna saman við samstarfið og að það sé síðan farið að hafa áhrif á aðra hagsmunabaráttu hjá þessum samtökum.

Ég hef tvívegis lagt fram tillögu um að kosið sé beint í stjórn lífeyrissjóðanna, einn maður – eitt atkvæði, og hef oft fengið þá athugasemd að það hljóti að vera svo erfitt að útfæra það tæknilega. En ég hef þá á móti bent á að milljónaþjóðir í heiminum geti kosið með þeim hætti og fengið niðurstöðuna jafnvel samdægurs, þannig að ég treysti lífeyrissjóðunum okkar fyllilega til að leysa það vandamál, ef menn telja það vandamál. (Gripið fram í.) Við verðum í ljósi þessara upplýsinga, 500 milljarða kr. taps bara í tengslum við hrunið, að vera tilbúin að ræða lífeyrissjóðina okkar (Forseti hringir.) á opinskáan máta. Við verðum að vera tilbúin að nálgast (Gripið fram í.) þá á gagnrýninn hátt, gera okkur grein fyrir kostum þeirra en vera líka óhrædd við að tala um gallana.