140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel alltaf þakkarvert þegar menn benda mér á að ég þurfi að lesa eitthvað sem ég er búin að lesa, ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir það. Það er einmitt á grundvelli meðal annars þeirra athugasemda sem — þó að ég hafi verið að segja að það hafi meira og minna staðfest þá afstöðu sem ég hafði frá því að ég fékk þær upplýsingar á sínum tíma um að lífeyrissjóðirnir ætluðu að fara í þessa rannsókn, að nauðsynlegt væri að Alþingi mundi að vissu leyti bara þakka fyrir það og það væri ágætt fyrir viðkomandi lífeyrissjóði en við ætluðum okkur að fara í sjálfstæða og óháða rannsókn sjálf sem við síðan ályktuðum um 63:0 ef hv. þingmaður skyldi hafa gleymt því.

Hvað varðar uppfræðslu mína varðandi sögu lífeyrissjóðanna þá geri ég mér fyllilega grein fyrir því að það hafi á sínum tíma verið samningsatriði. Hins vegar hefur verið gengið mjög eftir því að innleiða samninga í lög og þar með er þetta orðið hluti af verkefnum okkar. Ein af lykilástæðum fyrir því líka að ákveðið var að lögfesta þetta og ákveða að skerpa á fjárfestingarstefnunni og halda utan um lífeyrissjóðina á þennan máta var einmitt sú að lífeyrissjóðirnir höfðu í sumum tilvikum ekki staðið sig neitt sérstaklega vel í að halda utan um peningana sína. Ég held að það hafi nú verið ein ástæðan fyrir því að Alþingi taldi ástæðu til þess að setja sérstaka löggjöf um lífeyrissjóðina.

Það sem mér finnst skipta mjög miklu máli og ég hef viljað nálgast lífeyrissjóðina hvað það varðar út frá hugmyndafræði minni sem stjórnmálamanns: Ég vil að við tryggjum valddreifingu, að við tryggjum lýðræði, að við tryggjum ábyrgð okkar sem einstaklinga á eigin lífi um leið og við höfum í huga mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar, að við vinnum út frá samvinnuhugsjóninni. Þannig hef ég nálgast lífeyrissjóðina. Þess vegna finnst mér mjög einkennilegt þegar menn virðast vera svona ofboðslega mikið á móti lýðræði, þó að við séum samt sammála um að það sé besta stjórnkerfi sem við getum búið við.