140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að Vilmundur Gylfason hafi orðað það ágætlega á sínum tíma þegar hann talaði um tröppulýðræðið, sem væri fyrirkomulagið innan verkalýðshreyfingarinnar og síðan í framhaldinu innan lífeyrissjóðanna. Tengslin á milli þeirra sem raunverulega, eins og í þessu tilviki, eiga réttindin eru orðin svo ofboðslega óskýr og ábyrgðin er líka orðin mjög óskýr.

Ég vona svo sannarlega að hv. þm. Magnús Norðdahl sé jákvæður gagnvart þeirri niðurstöðu sem kemur fram í þeirri nefnd sem hv. þingmaður telur að hafi starfað mjög vel, þar sem þeir segja þar að auka verði lýðræðið. Ég tel það algjörlega nauðsynlegt vegna þess að það er svo mikilvægt að fólk axli sjálft ábyrgð. Það er það sem við gerum með því að nýta atkvæðisrétt okkar.

Hvað varðar þær vangaveltur um að ábyrgðin sé fyrst og fremst Alþingis: Við berum mikla ábyrgð, já. Hins vegar er það svo að við getum samt ekki sagt að við berum ábyrgð á því ef einhver keyrir of hratt, ef einhver stelur úr búð eða ef einhver drepur einhvern eða fer illa með það lagaumhverfi sem Alþingi setur. Sumar af þeim upplýsingum sem koma fram í skýrslunni um lífeyrissjóðina virðast til dæmis benda til þess að menn hafi gleymt því að lífeyrissjóðir eru fyrst og fremst hugsaðir sem langtímafjárfestar og voru farnir að telja sig vera einhvers konar „day traders“ eða skammtímafjárfesta þar sem þeir voru að selja í einni vikunni og kaupa í næstu, gera ofsalega spennandi framvirka gjaldmiðlasamninga. Þetta er náttúrlega eitt af því sem er mjög mikilvægt að nefnd á okkar vegum fari í og rannsaki (Forseti hringir.) hvort þetta hafi verið með eðlilegum hætti.