140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:19]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu um lífeyrissjóðina og hvernig þeir stóðu sig í fjárfestingum í aðdraganda og eftirmála hrunsins. Lífeyrissjóðirnir hafa tapað nærri því 500 milljörðum af sparifé almennings og það er grafalvarlegt mál. Að hluta til er það afleiðing óráðsíu, meðvirkni og að því er virðist jafnvel spillingar í samkrulli við fjármálakerfið og atvinnulífið, en atvinnulífið á meiri hluta í stjórnum sjóðanna og ræður því fjárfestingum þeirra. Það hefur komið í ljós að sumar þeirra fjárfestinga voru mjög einkennilegar svo að vægt sé til orða tekið.

Þessi rannsókn hefur verið af hinu góða og ég þakka fyrir hana og þá mikilvægu skýrslu sem kom fram og er mjög ítarleg. Ég tel hins vegar að hún gangi ekki nægilega langt og því er mjög brýnt að þingsályktunartillaga Alþingis um skipan rannsóknarnefndar á vegum þingsins verði samþykkt sem fyrst. Þar þarf einfaldlega að fletta rækilega upp öllum sporslum og boðsferðum sem stjórnendur og starfsfólk lífeyrissjóðanna þáðu, því að í þeim tengslum liggur ekki síður vandinn en víða annars staðar í lífeyriskerfinu.

Tap lífeyrissjóðanna hefur af þeirra hálfu verið að einhverju leyti reynt að réttlæta með tilvísunum til hrunsins og að allir aðrir hafi tapað líka. Málið er hins vegar þannig að launakjör starfsmanna og sumra stjórnenda lífeyrissjóðanna áttu einmitt að tryggja að til staðar væri sérfræðiþekking sem átti að forða sjóðunum frá því að tapa eins og hinir. Fjárfestingar sumra sjóðanna frá ársbyrjun 2008 vekja upp mikilvægar spurningar en frá þeim tíma var orðinn til sterkur grunur og jafnvel vissa um að íslenska fjármálakerfið mundi hrynja á haustmánuðum. Því þarf að rannsaka stöðu og rekstur lífeyrissjóðanna undanfarin tíu ár að lágmarki að mínu mati.

Lífeyrissjóðakerfið í heild sinni á Íslandi þarfnast einnig umtalsverðrar endurskoðunar við þar sem fjölmargir þættir þess eru meingallaðir. Þar ber fyrst að nefna mismun opinbera kerfisins og almenna kerfisins þar sem ófjármagnaðar skuldbindingar opinbera kerfisins eru gríðarlegar og þýða mikil útgjöld úr ríkissjóði í framtíðinni. Vegna áratugahefðar um samspil kjara opinberra starfsmanna og lífeyrisréttinda þeirra er hér hins vegar um mjög flókið úrlausnarefni að ræða og verður erfitt að ráða úr. En þar þarf líka að eyða umtali um að þingmenn, ráðherrar og háttsettir opinberir embættismenn hafi náð að tryggja sjálfum sér réttindi umfram aðra. Slíkt verður eingöngu gert með opinberri birtingu þeirra réttinda.

Annað sem þarf að endurskoða í lífeyriskerfinu í heild sinni er þátttaka lífeyrissjóðanna í almannatryggingakerfinu með til dæmis örorkubótagreiðslum og fleiri stórum útgjaldaliðum umfram hefðbundnar lífeyrisgreiðslur. Þar get ég tekið sjálfan mig sem dæmi en ég var tíu ár á sjó á mjög góðum launum, borgaði mikið í lífeyrissjóð allan þann tíma, en vegna þeirra gríðarlegu örorkubóta sem sá lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður sjómanna, hefur þurft að inna af hendi undanfarin ár mun ég fá um 8 þús. kr. á mánuði í lífeyrisgreiðslur þegar ég fer á eftirlaunaaldur. (Gripið fram í.) Það er allt og sumt. Slíkur ójöfnuður er heldur ekki réttlátur.

Þriðja atriðið sem þarf að leiðrétta eru þær skerðingar á ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins sem verða vegna sjóðsöfnunargreiðslna til þeirra sem hafa náð að spara þannig. Annað dæmi get ég tekið bara úr síðustu viku þar sem ég var að ræða við föður félaga míns sem hafði greitt í lífeyrissjóð í 40 ár. Hann fær 2 þús kr. meira á mánuði í ellilífeyri en nágranni hans í næstu íbúð sem hefur aldrei greitt eina einustu krónu í lífeyrissjóð en fær fulla greiðslu frá Tryggingastofnun. Þessar skerðingar þarf að afnema, alla vega að stóru leyti, þannig að sparnaður fólks verði mikilvægari í huga þess og hvatningin til að spara verði meiri og þar með hvatningin til þess að hafa áhrif á lífeyrissjóðina og lífeyrissjóðakerfið í heild sinni. Það er ekki hægt að hugsa málið þannig að hægt sé að skylda fólk með landslögum til að leggja fé af hendi inn í lífeyrissjóði sem skilar því svo í rauninni engu til baka þegar upp er staðið miðað við þá sem ekki greiða í lífeyrissjóð.

Fjórða atriðið sem þarf að laga er fjöldi lífeyrissjóða, en hér á landi er á fjórða tug lífeyrissjóða og rekstrarkostnaður þeirra er gríðarlega hár. Ekki mæli ég með einu lífeyrissjóðakerfi fyrir alla landsmenn en þeim mætti fækka umtalsvert með sameiningu.

Fimmta atriðið er svo hugmyndin um verðtryggðan lífeyri sem er einfaldlega blekking nema í tilfelli opinberu sjóðanna sem núna hefur bersýnilega komið í ljós að standa mjög illa undir sér. Slík blekking þarf að heyra sögunni til. Verðtrygging á greiðslum úr öðrum sjóðum er einnig blekking og öfugt við það sem fram kom hér fyrr í dag hafa greiðslur úr þeim sjóðum einfaldlega ítrekað verið skertar eftir stöðu sjóðanna, þannig að þó að þær séu að nafninu til verðtryggðar er sú verðtrygging ekki til staðar í raunveruleikanum.

Afnám verðtryggingar á öllum fjárskuldbindingum í efnahagslífinu nema á langtímabréfum ríkissjóðs eins og er í flestum löndum heims þarf að verða reglan á Íslandi. Það þarf að leiðrétta þennan verðtryggingarójöfnuð sem hefur meðal annars leitt til þess að lífeyrissjóðirnir hafa fengið nærri því 200 milljarða kr. í verðbætur af lánum til heimilanna frá ársbyrjun 2008 með tilheyrandi tæknilegum gjaldþrotum þúsunda heimila. Það er þetta sem verðtryggingin er að gera, það er þarna sem hún er að valda skaða og valda miklu meiri skaða en hún er til góða fyrir lífeyrissjóðina. Slík breyting á kerfinu með afnámi verðtryggingar gæti vel verið hluti af aðgerð sem stefnir að almennum leiðréttingum á verðtryggðum fasteignaveðlánum og þingmenn úr öllum flokkum hafa talað hér fyrir í dag. Það þarf að koma til almenn leiðrétting á skuldum heimilanna, á fasteignaveðlánum þeirra og með niðurfærslu þeirra lána og afnámi verðtryggingar samhliða því væri hægt að hrinda í framkvæmd kerfi sem mundi ýta íslensku efnahagslífi upp á við og úr vör meira en nokkuð annað.

Sjötta atriðið er varðar lífeyriskerfið í heild sinni er að það þarf að velja með öðrum hætti í stjórn sjóðanna og með lýðræðislegri hætti þar sem eigendur þeirra, þ.e. almenningur, á að ráða því alfarið hverjir sitja í stjórnum þeirra. Það samkrull stjórnenda sjóðanna og viðskiptalífsins með meðal annars gríðarlega háum og algjörlega óskiljanlegum stöðutökum í gjaldmiðlaskiptasamningum verður að stöðva, en slíkir samningar hjá sjóðunum sem fjárfesta til mjög langs tíma eru alls ekki hluti af neinni eðlilegri áhættustýringu. Þóknanir fyrir slíka samninga eru hins vegar mjög háar og þátttakendur og þátttaka lífeyrissjóðanna í þeim vekur upp mjög alvarlegar spurningar um óeðlileg tengsl.

Sjöunda og mikilvægasta og brýnasta atriðið er þó hins vegar að iðgjöldum í lífeyrissjóðina verði komið tímabundið í skjól í bundnum innlánsreikningum einstaklinga í Seðlabankanum þar til endurskipulagning kerfisins hefur farið fram. Þessu þarf að hrinda í framkvæmd sem fyrst þar sem fjölmargir hrunverjar eru enn við stjórn í lífeyrissjóðunum og það er algjörlega óþolandi staða að almenningi skuli skylt með lögum að afhenda sjóðunum og stjórnendum og starfsmönnum þeirra sparnað sinn. Lífeyrissjóðunum og lífeyriskerfinu í heild sinni er ekki treystandi fyrir þessum fjármunum að óbreyttu.

Frú forseti. Ég tel að til frambúðar þurfi að vera til staðar einhvers konar blandað kerfi sameiginlegrar sjóðsöfnunar með baktryggingu frá hinu opinbera sem tryggir lágmarksframfærslu fyrir alla óháð sjóðsöfnun. Þetta gerir þörfina fyrir svo gríðarlega stóra lífeyrissjóði miklu minni, enda ber íslenskt hagkerfi ekki svona stóra sjóði. Það er ekki einu sinni til hlutabréfamarkaður á Íslandi fyrir þessa sjóði til að fjárfesta í og skuldabréfamarkaðurinn er mjög brogaður. Blandað kerfi sjóðsöfnunar og gegnumstreymiskerfis mundi stuðla að meira jafnvægi og dreifa valdi og draga úr valdi fjármálakerfisins, sem er mjög mikilvægt, því að þó að það hafi komið hér fram áður og menn hafi bent á að það séu ekki beinlínis lífeyrissjóðirnir sjálfir sem taki ákvörðun um spítalabyggingar og vegi skiptir aðkoma þeirra að slíkum framkvæmdum miklu máli. Ef þeir eiga að geta sagt af eða á um hvort slíkar nauðsynlegar framkvæmdir eigi að eiga sér stað er lífeyriskerfið okkar einfaldlega komið út í ógöngur. Það á ekki að vera hlutverk lífeyriskerfisins að taka ákvarðanir um slík mál.

Skýrsla lífeyrissjóðanna sem kom út um daginn er kannski og vonandi bara fyrsta skrefið og það er orðið löngu tímabært að tempra gríðarleg völd þeirra og áhrif í efnahagslífinu. Digrir sjóðir eru til margs nýtir og af hinu góða en þeir eru líka, eins og fram hefur komið, púllía af fjármunum fyrir braskara til að ráðskast með ef ekki er varlega farið. Þegar slíkur sparnaður er skyldaður með lögum er enn mikilvægara að umgjörðin um kerfið sé góð og eins sjálfbær og hægt er.

Því miður hefur komið í ljós, frú forseti, að kerfið á Íslandi er ekki nærri því eins gott, það er ekki besta lífeyrissjóðakerfi í heimi, og menn töluðu hér um árum saman, heldur er það gallað og jafnvel gallaðra en í mörgum nágrannalöndunum. Við búum að vísu svo vel að búa ekki eingöngu við gegnumstreymiskerfi, sem eru heldur ekki góð, en sjóðsöfnunarkerfi eins og við höfum byggt hér upp hefur sýnt sig að dugir ekki til, það er ekki sjálfbært, það er ekki verðtryggt og hagkerfið ber ekki slíkt sjóðsöfnunarkerfi eingöngu. Finna verður einhvers konar blandaða leið með þetta kerfi til að tryggja fólki sem hefur unnið alla sína starfsævi eins áhyggjulítið ævikvöld og mögulegt er.

Ég vona að það verði verkefni Alþingis, með skipan nýrrar rannsóknarnefndar sem verður næsta skref í þessu máli, að upplýsa enn betur um hvað fór úrskeiðis. Samhliða þeirri vinnu þarf að hrinda af stað úttekt og endurskipulagningu á lífeyriskerfinu í heild.