140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:52]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú fullyrðing að Alþýðusamband Íslands hafi barist gegn því að skuldir heimilanna hafi verið léttar er ósköp einfaldlega röng. (GBS: Nei.) En það sem Alþýðusambandið hefur aftur á móti gert er að reyna að verja sig gegn tillögum eins og þeim sem hér var gerð grein fyrir áðan sem fela í sér að taka ellilífeyrissparnað almenns launafólks og nota hann í allt öðrum tilgangi en til hans var efnt og veita honum til almennrar skuldaleiðréttingar. Það er ekki hlutverk lífeyrissjóðanna og á ekki að vera hlutverk lífeyrissjóðanna en er lýsandi dæmi um það hvers vegna á ekki að hleypa stjórnmálamönnum, eins og menn eru að gera skóna, í stjórnir þeirra.

Menn hafa líka rætt um það hér hvort óeðlileg tengsl séu milli einstakra fjárfestinga og milli stjórnarmanna. Ég held að betra væri að þingmenn mundu lesa skýrsluna sjálfa því að í henni kemur mjög vel fram að slíkt hafi ekki komið fram í þeirri skoðun. Ég ætla ekki að útiloka að nauðsynlegt geti verið að skoða það betur og meðal annars hefur verið nefnt að það geti verið nauðsynlegt að skoða ýmsa þætti í þessum málum eins og tengsl á milli þess þegar sá sem selur einhverjum pappíra er jafnframt að bjóða honum í einhverjar ferðir. Auðvitað getur verið að skoða þurfi fjöldamargra aðra þætti. Í þessari skýrslu er ekki tekið beint á því, gerð er grein fyrir því að búið sé að kippa þessu í liðinn til framtíðar og setja mjög stífar og ákveðnar reglur í því efni. Ég útiloka ekki að ýmislegt annað þurfi að skoða vel.