140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil gera tilraun til að leiðrétta það sem ég tel vera misvísandi framsetningu af hálfu hv. þingmanns. Í upphafi máls síns benti hann réttilega á það að þegar tap lífeyrissjóðanna er metið, um 500 milljarðar, verði menn jafnframt að horfa til ávinnings í aðdraganda hrunsins. Þetta er alveg rétt. Þegar kemur að því að ræða tap Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hins vegar er þingmaðurinn með einhliða tölu um 100 milljarða kr. tap, en gleymir því að samkvæmt þeirri formúlu sem hann beitti sjálfur þegar hann ræddi um lífeyrissjóðina almennt hefði hann átt að vekja athygli á því að í aðdraganda hrunsins var ávinningur þessa sama lífeyrissjóðs 136 milljarðar. Við verðum að horfa til þessara staðreynda.

Eignir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eru núna metnar á um 400 milljarða kr. Hverjar voru þær mestar í aðdraganda hrunsins? Þær voru mestar 340 milljarðar. Ég er bara að vekja athygli á því að þegar menn slá fram tölum verða þeir að horfa á þær í þessu samhengi.

Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs er þó ekki aðeins þessi heldur líka að vekja athygli á því að það er rangt hjá hv. þingmanni að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hafi orðið fyrir mestu tapi í hruninu. Það er rétt í krónum talið en að sjálfsögðu hljótum við að horfa þarna á hlutfallstölur. Tap hans á því viðmiðunartímabili sem nefndin skoðaði, þ.e. frá 2007–2010 var tæp 30%. Það er sambærilegt við það sem gerðist hjá stóru lífeyrissjóðunum. Það voru undantekningar frá þessu, mesta tapið var 50% hjá bankamönnum, en þetta er mjög áþekkt. Hins vegar er það rétt að ef við skoðum krónufjöldann eru tölurnar að sjálfsögðu hærri hjá stórum lífeyrissjóðum en smáum. Rétt skal vera rétt í þessu efni.

Síðan er hitt sem ég vil vara við, það er að reka fleyg í raðir launafólksins eins og mér fannst gert í þessari ræðu.