140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:56]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér er ljúft og skylt að taka fram að auðvitað er þessi tala hvað varðar Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og ég held að Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga sé inni í þeirri mynd líka, hin sama og brúttótapið sem ég fór yfir áðan. Það er alveg rétt að hlutfallslega er tapið hið sama eins og hæstv. innanríkisráðherra nefndi.

Aðeins um fleyginn. Mismunun í lífeyriskerfi landsmanna er fleygur í holdi þjóðarinnar þannig að ég tel mig ekki vera að reka neinn fleyg í hóp launafólks þegar ég segi að það sé ekki rétt að fólk sem stendur hlið við hlið, á sama vinnustað, vinnur í grundvallaratriðum sömu störf fyrir sömu laun, skuli eiga mismunandi lífeyrisréttindi og annar fái lífeyrisgreiðslur að hluta fjármagnaðar úr ríkissjóði sem allur hópurinn greiðir. Þetta er fleygur í holdi þjóðarinnar. Ég veit að innanríkisráðherra er sammála mér um að það er löngu orðið tímabært að gera á þessu bragarbót og það þarf að haga þeirri framkvæmd þannig að skynsamlega sé að því staðið. Fyrirheit hafa verið gefin um það af hálfu ríkisstjórnarinnar og ekki bara þeirrar sem nú situr heldur hefur þetta mál oftar verið tekið upp, en ég tel að núna sé tíminn og við eigum að gera það. Og úr því að við höfum tækifæri og erum að ræða þessi mál í heild sinni eigum við að hafa kjark til að taka á því. Það verður erfitt en við skulum gera það.