140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:00]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að búa þessar spurningar í einfaldan búning og nota þessi hugtök og segja: Eigum við ekki bara að jafna upp á við? Við vitum að það vantar upp í framtíðarskuldbindingar hjá LSR væntanlega í kringum 1.300 millj. kr., bara í þann sjóð. Það er ófjármagnað. Það þarf að eyða tugum milljarða næstu áratugina til að jafna þetta. Það er óskaplega mikil einföldun að segja: Við skulum bara gera það sama fyrir alla hina. Ég held að það sé nánast ekki framkvæmanlegt, miðað við þá stöðu efnahagsmála sem við erum í eða verðum í næstu árin.

Síðan segir hæstv. innanríkisráðherra: Þetta á við þá sem vinna hjá hinu opinbera, og telur þar upp góða hópa. En ég vil benda hæstv. innanríkisráðherra á að konunni sem lagar kaffið á sumum þessara vinnustaða eða þeim sem er gangavörður á sömu stofnunum, er skammtað allt annað. Það er staðreyndin, en launin eru þau sömu. Síðan er hitt: Munurinn er réttlættur með því að launakjörin séu önnur og verri. Vera má að það hafi einhvern tíma í fortíðinni verið rétt. Í dag er það rangt og þessi launakjör eru ef eitthvað er fullkomlega sambærileg, ef ekki þau sömu. Það sem skakkar á milli eru lífeyrissjóðirnir.

Það er rétt að halda því líka til haga að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa mótað sér þá stefnu eins og gert var í samningunum núna síðast á árinu 2011, að jafna þessi lífeyrisréttindi einmitt á þann hátt að fólk sé drifið upp. Við verðum að horfa til framtíðar og gera þetta kerfi sjálfbært þannig að það verði ekki rekið á kostnað ríkisins.