140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:23]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ágæta ræðu og yfirferð um skýrsluna og lífeyrissjóðamálin almennt. Nú hefur hv. þingmaður oftsinnis fjallað um lífeyrissjóðina úr þessum ræðustóli og víðar á undanförnum árum og haft sterkar skoðanir á sjóðunum, tilgangi þeirra, starfsemi o.s.frv. eins og kom fram áðan.

Mig langar til að spyrja þingmanninn almennt út í niðurstöður skýrslunnar, hverjir eru helstu lærdómar sem við getum dregið af því sem fram kemur í niðurstöðu úttektarnefndarinnar, ef það eru einhverjir slíkir lærdómar sem við getum tileinkað okkur og lært af, þá sem löggjafinn, þingmenn sem Alþingi. Og þá sömuleiðis svipuð og almenn spurning, hvaða helstu lærdóma stjórnendur lífeyrissjóðanna ættu að draga af niðurstöðum skýrslunnar.

Það kemur meðal annars fram í niðurstöðum úttektarnefndarinnar að nauðsynlegt sé að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um lífeyrissjóði. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er sama sinnis að nauðsynlegt sé að gera það. Lögum um lífeyrissjóði hefur margsinnis verið breytt eins og hv. þingmaður nefndi reyndar í ræðu sinni áðan. Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að endurskoða þurfi lög um lífeyrissjóði og þá hvernig, með hvaða hætti ætti að fara í það? Er það varðandi fjárfestingarmöguleika sjóðanna, fjárfestingarstefnuna, heimildir þeirra til að fjárfesta með tilteknum hætti og þrengja þá möguleika eða er nauðsynlegt að grípa til annarra lagabreytinga af því tilefni?