140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Tilefni þessarar umræðu er nýútkomin skýrsla um lífeyrissjóðina í landinu. Það er mjög mikilvægt að taka umræðu um lífeyrissjóðina, stöðu þeirra fyrir efnahagshrunið, stöðu þeirra núna og framtíðarsýn okkar á þróun lífeyriskerfisins.

Hvað fyrsta atriðið snertir þarf Alþingi að gera upp við sig hvort ráðist verður í frekari rannsóknir á starfsemi lífeyrissjóðanna en þegar hefur farið fram og ef svo er á hvaða forsendum það skuli gert. Við umræðuna hefur verið vísað í fyrri samþykktir þingsins, nokkuð sem þingnefnd sem fjallar um þessi mál þarf að taka til skoðunar. Mér finnst um margt góður sá texti sem er í þingsályktunartillögu sem hv. þm. Eygló Harðardóttir er 1. flutningsmaður að. Þar er grunnhugsunin sú að metnar skuli afleiðingar af lagabreytingunum sem gerðar voru 1997 sem lífeyriskerfið grundvallast á fram á þennan dag og reynt að setja fram tillögur til úrbóta. Það er að sjálfsögðu verkefnið.

Þetta snýr að fortíðinni. Hvað samtímann áhrærir er mikilvægt að gaumgæfa stöðu lífeyrissjóðanna núna og gera það í sem upplýstustum farvegi. Mér þykir skorta pínulítið á að svo sé gert. Ég nefni dæmi: Menn slá fram fullyrðingum um tap lífeyrissjóðanna á árunum 2008, 2009 og 2010 án þess að hafa hliðsjón af því sem gerðist í aðdraganda hrunsins. Ýmsir þingmenn hafa bent á þetta við umræðuna. Það breytir því ekki að lífeyrissjóðirnir urðu fyrir verulegum skakkaföllum í hruninu og við eigum að draga lærdóm af því.

Annað sem ég vil nefna varðandi samtímann er að horfa til stöðu lífeyrissjóðanna núna og setja þá ekki alla undir sama hattinn, t.d. gamla kerfið hjá hinu opinbera og nýja kerfið hjá hinu opinbera, og hræra síðan öllu saman. Það er ekki saman að jafna skuldbindingum ríkisins gagnvart eldra kerfinu annars vegar og nýja kerfinu hins vegar sem tók til starfa í ársbyrjun 1997. Menn hafa talað um það, jafnvel virtir embættismenn sem fjalla um þessi mál, að það eigi að skuldfæra í bókhaldi ríkisins skuldbindingar A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það er af og frá að það eigi að gera, að mínu mati, einfaldlega vegna þess að skuldbindingar ríkisins felast einvörðungu í breytilegu iðgjaldi. Menn hafa teflt þarna fram stórum upphæðum, 47 milljörðum. Þar er um að ræða annars vegar áfallnar skuldbindingar upp á 4 milljarða og hins vegar framtíðarskuldbindingar upp á 43 milljarða. Við erum að tala þar um heildarskuldbindingar upp á 47 milljarða. Þá horfa menn til þess að kerfinu yrði lokað og síðan ekki söguna meir, hvað mundi síðan gerast og hvað tryggingafræðilegir útreikningar bendi til að mundi gerast á næstu áratugum gagnvart þeim sem nú eru í sjóðnum ef engir kæmu inn til viðbótar. En skuldbindingar ríkissjóðs varðandi A-deildina snúa einvörðungu að iðgjaldinu og það á að mínum dómi alls ekki að skuldfæra í bókum ríkisins eins og haldið hefur verið fram í fréttum að undanförnu.

Öðru máli gegnir um skuldbindingar gömlu deildarinnar, B-deildarinnar. Í árslok 1996 var deildinni lokað fyrir öllum nýráðningum. Það fór enginn nýr starfsmaður inn í B-deildina og þá gefur augaleið að ef ekki koma nýir til að greiða iðgjöldin hlaðast upp skuldbindingar sem eru á ábyrgð ríkissjóðs, að sjálfsögðu. Menn tala um það af ótrúlegri léttúð að ríkið eigi jafnvel að hlaupa frá þessum skuldbindingum. Það er af og frá og við skulum hafa í huga að gamla B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem var að verulegu leyti gegnumstreymissjóður, niðurgreiddi almannatryggingakerfið að miklu leyti. Þegar ég varð formaður BSRB 1988 kom iðulega til mín fólk og hafði uppi þann málflutning á fundum og þingum BSRB, og ég veit að hið sama var hjá BHM, að það munaði svo litlu að borga í lífeyrissjóðinn, við værum allt að því eins vel sett ef við fengjum greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Þetta er veruleikinn, á meðan lífeyrissjóðirnir á almennum vinnumarkaði voru að byggja sig upp var lífeyriskerfi opinberra starfsmanna til jöfnunar látið niðurgreiða það, og það réttilega að mínum dómi. Þetta eru hlutir sem þarf að horfa til þegar menn horfa í skuldbindingar ríkissjóðs og líka hins að verulegar upphæðir voru teknar út úr lífeyrissjóðnum til uppbyggingar í samfélagslegum verkefnum eins og í húsnæðiskerfinu sem ríkið tók án þess að greiða vexti. Þetta eru staðreyndir sem ekki er hægt að horfa fram hjá. Þetta snýr að samtímanum, og hvað þá með framtíðina? Öll viljum við hafa tryggingu fyrir öryggi á efri árum, búa við tryggt lífeyriskerfi. Stóra spurningin núna er hvernig við förum að því að byggja það upp. Þegar við vorum lítil settum við, sum hver, pening í sparibauk og sumir hafa litið á lífeyriskerfið sem eins konar sparibauk. Þannig er það samt ekki nema að því leyti að ef við tökum peningana úr sparibauknum eftir mjög langan tíma hefur verðgildi krónunnar sem þangað var sett rýrnað verulega nema eitthvað annað komi til. Það sama mundi gilda í lífeyriskerfinu ef ekki kæmi eitthvað annað til.

Hvernig tryggjum við þá kerfið? Það getum við gert með ýmsum hætti. En hvaða fyrirkomulag sem við höfum, hvort sem við höfum gegnumstreymiskerfi eða sjóðsmyndun, gilda nákvæmlega sömu lögmál. Það þarf að taka verðmæti út úr efnahagskerfinu á hverjum tíma og færa yfir til lífeyrisþeganna. Spurningin snýst þá um það hversu öflugt efnahagskerfið er og hve aflögufært til að láta þessi verðmæti af hendi.

Fyrr á tíð má segja að verðtrygging Íslendinga hafi verið syndandi í sjónum. Það var sjávaraflinn, fiskurinn, hann var okkar verðtrygging. Svo færðist hún upp á landið með fjölbreyttara atvinnulífi. Efnahagslífið var verðtryggingin okkar. Þess vegna sagði ég árið 1996 þegar sett var inn í lögin ákvæðið sem sumir gera lítið úr, um að lífeyrissjóðirnir ættu að sækjast eftir hámarksávöxtun, að þarna væru menn skammsýnir. Það getur verið heppilegra að vera varkárari og horfa til lengi tíma, jafnvel þótt ávöxtunin sé lægri, ef það er til þess fallið að styrkja efnahagslífið. Það er sú röksemd sem ég hef sett fram og haldið fram öll þessi ár.

Hvað gerum við þá? Það hefur sýnt sig að lífeyrissjóðirnir eru allt of aflögufærir og það er langt umfram getu íslenska efnahagskerfisins að taka á móti fjárfestingunum. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins fjárfestir 2 milljarða kr. í hverjum einasta mánuði. Lífeyrissjóðirnir í landinu fjárfesta um 120 milljarða á ári.

Hvað gerðum við þá? Við bjuggum til þær reglur að hluti þessa fjármagns yrði festur til uppbyggingar hér á landi, og mönnum þótti það gott, og hluti færi úr landi. Þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða.

Mín tillaga er sú að við íhugum núna hvort við eigum að búa til nýja blöndu þar sem við hverfum í fyrsta lagi frá þeirri hugsun að leggja nánast af almannatryggingakerfið, að við styrkjum það. Í annan stað smíðum við og styrkjum sjóðakerfið sem við búum þegar við. Í þriðja lagi (Forseti hringir.) finnum við langtímagrundvöll, t.d. í nýjum auðlindasjóði sem yrði (Forseti hringir.) meðal annars notaður til að styrkja lífeyriskerfi landsmanna. Þetta er umræða sem þarf að fara fram á komandi mánuðum og missirum. Við eigum ekki að hrapa (Forseti hringir.) að niðurstöðu en það er mikilvægt að umræðan fari fram.

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn og ráðherra að virða ræðutíma.)