140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir ágæta ræðu, sérstaklega lok hennar þar sem hann skoraði á menn að fara að ræða lífeyrismálin í alvöru. Ekkert hefði ég á móti því að ræða ýmsar leiðir til að byggja upp gott og stöðugt velferðarkerfi með lífeyrissjóðina innbyrðis.

Það var dálítið hressandi að heyra hæstv. ráðherra tala áðan um kapítalískt kerfi, galla þess og svoleiðis. Það er langt síðan maður hefur heyrt svona hreinræktaðar kommúnistískar hugsanir þannig að þetta var hressandi. Þær liðu undir lok í Sovét á sínum tíma en lifa sem sagt enn á Íslandi.

Hæstv. ráðherra var formaður stjórnar LSR á tímabili og ég vil spyrja hann beint út hvort komið hafi fram tillaga frá fulltrúum launþega í stjórn LSR um að hækka iðgjaldið í samræmi við tryggingafræðilega úttekt og nauðsyn þess varðandi framtíðariðgjöld og annað slíkt sem hafi svo verið felld af fulltrúum ríkisins. Eða komu menn ekki með neinar tillögur um þetta og þar af leiðandi safnaðist upp mismunur á framtíðarskuldbindingum og eignum upp á 47 milljarða? Hvernig stendur á því að þetta kerfi sem átti að vera sjálfbært, þ.e. A-deildin, hefur ekki verið það og að iðgjaldið hefur ekki verið hækkað um 4% sem þarf, upp í 19,5%, heldur er núna 15,5% og dugar ekki til? Það munar 4 milljörðum hjá ríkissjóði í minni iðgjöldum á hverju ári. Er það af tillitssemi við fjárlögin og fjármálaráðherra sem þetta hefur ekki verið hækkað? Hver er ábyrgð stjórnarinnar, bæði launþegahlutans og fulltrúa ríkisins, í því að A-deildin er ekki sjálfbær eins og hún átti að vera samkvæmt lögum?