140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[17:52]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins í framhaldi af þessu: Jú, það er sá munurinn á að ef 80, 100 eða 200 milljarðar eru teknir út úr lífeyrissjóðakerfinu verða sjóðirnir samkvæmt gildandi lögum, og samkvæmt því sem er skynsamlegt, að taka á því strax. Við tryggingafræðilega skoðun sem gerð er strax í kjölfarið þarf að gera þær leiðréttingar sem þarf að gera þannig að sjóðirnir getið staðið undir þeim skuldbindingum sem þeim er ætlað að standa undir.

Þarna er mikill munur á eins og til dæmis varðandi hina opinberu sjóði sem þurfa ekki að sæta þessu þó svo að þeir eigi jú að hækka iðgjöldin eins og farið var yfir fyrr í dag. En þeir standa ekki frammi fyrir sama vandamáli og almennu sjóðirnir þannig að það þyrfti að gera það strax.

Það væri gaman að taka umræðu um þessar róttæku tillögur svo langur sem slagurinn var við stjórnvöld um að fá í gegn almennilega greiðsluaðlögunarlöggjöf. Þær voru mun öflugri en sú sem leit hér dagsins ljós.

Síðan aðeins vegna þess tilefnis sem gefist hefur varðandi stjórnun sjóðanna, af því að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór aðeins yfir það, þá er það þannig að af þeim 27 stjórnarmönnum sem verkalýðsfélögin á almennum vinnumarkaði eiga í stjórnum sjóðanna eru 9 einstaklingar af þeim sem skrifuðu upp á ársreikninga sjóðanna vegna ársins 2008 enn í stjórn. Stærstur hlutinn hefur því verið endurnýjaður. Fyrir dyrum standa aðalfundir lífeyrissjóðanna og má því gera ráð fyrir að enn meiri endurnýjun verði, einfaldlega vegna þess að sjóðirnir eru með mjög örar skiptireglur.