140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[17:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mikil þörf er á að ræða málefni lífeyrissjóðanna. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Lífeyrissjóðakerfið hefur hér farið í gegnum hvítþvott á sjálfu sér. Eins og allir muna kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis tillaga um að fram skyldi fara opinber rannsókn á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna fyrir hrun. En þá tóku lífeyrissjóðirnir sjálfir þetta hliðarspor í þá átt að rannsaka sjálfa sig sem er aldrei góðs viti, sérstaklega í ljósi þess að við höfum gengið í gegnum marga gjörninga sem leiddu til þess að heilt bankakerfi hrundi.

Ég hef verið að hlusta á ræðu hv. þm. Magnúsar Norðdahls, sem er yfirlögfræðingur ASÍ, og eins á andsvör hans. Það er heppilegt að ASÍ hafi málsvara á þingi þegar þessi skýrsla er rædd. Við þingmenn erum þá nær þeirri hugsun sem ASÍ stendur fyrir því að eins og allir vita er verkalýðshreyfingin með aðila í stjórnum lífeyrissjóðanna sem vægast sagt koma ekki vel út í þessari skýrslu.

Ég fór á fundinn þar sem skýrslan var kynnt og nokkur kurr fór um salinn þegar upplýst var að lífeyrissjóðirnir hefðu tapað 480 milljörðum í bankahruninu. En þá ber að geta þess að þessi upphæð miðast eingöngu við árin 2006, 2007, 2008 og 2009. Í skýrslunni er ekki rætt um hvað hafi tapast eða áunnist á árunum 2010 og 2011, sem er mjög slæmt vegna þess að nú er komið inn á fjórða árið frá bankahruni og lífeyrissjóðirnir hafa lagfært stöðu sína með því að tekjufæra það sem áunnist hefur á þeim árum sem liðið hafa frá hruni, og ekki nóg með það heldur hafa þeir haft tækifæri til að dreifa tapinu á þessi ár.

Nú hefur hv. þm. Eygló Harðardóttir lagt fram þingsályktunartillögu hér í þinginu og ég er meðflutningsmaður á henni og vísa ég jafnframt í þá tillögu sem var samþykkt hér þegar rannsóknarskýrslan var til umræðu, þ.e. að við krefðumst þess að tafarlaust verði farið í opinbera rannsókn á lífeyrissjóðakerfinu öllu og þeim aðilum sem að því standa. Margt er óljóst í þessari skýrslu en hún er samt ágætt yfirlit yfir þróun lagaumhverfis frá því að skylduaðildin var tekin upp og skapar ágæta heildarmynd utan um það starfsumhverfi sem lífeyrissjóðirnir bjuggu við. En það gerist þarna á ákveðnu tímabili að menn missa algjörlega sjónar á því sem þeir voru fengnir til að gera.

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna kemur fram í 1. bindi því að 2., 3. og 4. bindi fjalla meira um sérhvern lífeyrissjóð. Ég ætla að tala hér almennt um lífeyrissjóðina sjálfa í stað þess að vera að brjóta þetta niður í hvern lífeyrissjóð fyrir sig.

Áður en ég fer inn á það kom hér fram í máli yfirlögfræðings ASÍ, hv. þm. Magnúsar Norðdahls, að ASÍ hefði komið með tillögur til að leiðrétta skuldir heimilanna. Það fór lítið fyrir því. Formaður ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, var fenginn í nefnd til að fara yfir það hvort ekki ætti að afnema vísitölutengingu lána strax eftir hrun á meðan mesti skaflinn væri að ganga yfir, en hann, sem formaður þeirrar nefndar, hafnaði því. Ég tel að það hafi verið mestu efnahagsmistök frá hruni að þessi aðili skyldi hafa staðið í vegi fyrir því, aðili með 120 þúsund félagsmenn á bak við sig. Ég tel að þetta hafi raunverulega verið eina leiðin í stöðunni, sérstaklega í ljósi þess að í gær kom í ljós að Hæstiréttur ógilti aftur gengistryggðu lánin og að samningsvextir skuli standa á þeim þannig að enn á ný hefur myndast djúp gjá á milli þeirra sem voru með gengistryggðu lánin annars vegar og svo vísitölutengdu íslensku lánin hins vegar, þannig að það hefði komið þessum hópi mjög til hjálpar.

Eins vil ég benda á það að auðvitað eiga almennu lífeyrissjóðirnir ekki að borga almenna skatta inn í kerfið eins og ríkisstjórnin lagði til og fékk samþykkt hér í þinginu. Almennu lífeyrissjóðirnir eru skattlagðir til að halda uppi velferðarkerfi. Skattlagningin átti ekki að vera bara á þessa sjóði og ég greiddi atkvæði á móti því vegna þess að þessi inneign í almennu lífeyrissjóðunum er inneign þeirra sem hafa borgað í þá. Ég vil meina að hægt sé að koma þeim heimilum til hjálpar, þeim aðilum sem eru á almenna vinnumarkaðnum, gegn því að fá greiðslu inn á lánin í gegnum sinn lífeyrissjóð til þess að greiða inn á húsnæði. Eins væri hægt að gera með opinberu lífeyrissjóðina, en á þetta hefur ekki verið hlustað, þetta er kölluð þjóðnýtingarstefna en það þyrfti ekki að vera allsherjarþjóðnýtingarstefna heldur í einhverju hlutfalli þannig að allir gætu fengið greitt inn á sín íbúðalán. En þrengslin í höfði ríkisstjórnarinnar eru svo mikil að ekki er hægt að hugsa út fyrir boxið og því er enn ekki farið að hreyfa neitt við því að lífeyrissjóðirnir komi til að aðstoða illa stödd heimili, því miður. Fólk hefur sagt við mig, kannski ungt fólk: Við erum að missa húsnæðið okkar, hvað eigum við að gera við lífeyrissjóð þegar við erum orðin 67 ára og höfum verið í leiguhúsnæði alla okkar tíð? Af hverju megum við ekki nota þessa inneign núna?

Tíminn líður hratt, frú forseti. Í ársreikningi lífeyrissjóðanna koma hvergi fram þóknunartekjur sem reiddar voru af hendi til erlendra fyrirtækja sem sáu um fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis, sem er afar einkennilegt. Yfirbyggingin er slík í lífeyrissjóðakerfinu að árið 2007 nam rekstur þess 3 milljörðum, 3 þús. millj. Ætli þetta sé ekki á bilinu 3,6–3,7 milljarðar uppreiknað á gengi dagsins í dag? Það er því alveg gríðarleg sóun í kerfinu en lífeyrissjóðirnir 32 auk almenna lífeyrissjóðsins opinbera segja sem svo: Við þurfum að hafa stjórn, við þurfum að hafa starfsfólk, við þurfum að hafa tryggingasérfræðinga, við þurfum að hafa fjárfestingasnillinga og annað. En allt þetta fólk starfar raunverulega inni í bankakerfinu þannig að auðvitað á að fækka lífeyrissjóðunum og á einhvern hátt að koma til móts við það þannig að öll þessi tækniþekking þurfi ekki að vera inni í hverjum sjóði fyrir sig. Þetta er sóun á almannafé.

Eins og ég gat um áðan koma heldur ekki fram þóknunartekjur erlendra aðila, sem voru að ráðleggja þeim snillingum sem fjárfestu í lífeyrissjóðunum. Það er mjög bagalegt og ekki síst ef við setjum það í samhengi við boðsferðir þeirra sem sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna sem ekki er tekið á í þessari skýrslu. Ég hef nýlega lagt fram fyrirspurn um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna varðandi ferðalög og boðsferðir og að sjálfsögðu fékk ég ekkert svar við því, það er hulið leyndarhjúpi.

Bent er á það í skýrslunni að lífeyrissjóðirnir fóru ekki eftir því sem venjulegar fjármálastofnanir fóru eftir varðandi tengda aðila. Sami lífeyrissjóðurinn var að fjárfesta alveg svakalega í eignum hjá tengdum aðilum sem raunverulega tapa þessu fyrir rest vegna þess að menn horfðu í gegnum fingur sér með það. Þá komum við aftur að því sem var svo vinsælt fyrir hrun, það sem ekki var bannað í lögum það mátti. Þá vinnureglu tömdu lífeyrissjóðirnir sér greinilega, það kemur greinilega fram í þessari skýrslu.

Hér er það líka gagnrýnt að lífeyrissjóðirnir skuli hafa fjárfest í skuldabréfavafningum, sett er spurningarmerki við það hvort það hafi yfir höfuð verið löglegt. En það sýnir hvað menn voru komnir út á hálar brautir, að fjárfesta í því sem var á gráu svæði og jafnvel komið yfir gráa svæðið varðandi lögmæti aðgerða.

Það er líka einkennilegt sem kemur fram í kafla 5.1.9 sem fjallar um fjárfestingar lífeyrissjóðanna í sérstökum tegundum skuldabréfa og í eignarhaldsfyrirtækjum. Þar er ágætur kafli um Glitni. Keyptir voru hlutar í Glitni án trygginga og annars og víkjandi skuldabréf og aftur komið inn á skuldavafninga og svo Landsbanka Íslands. Tími minn er á þrotum en ég hvet fólk til að lesa skýrsluna. Þetta er eins og í lygasögu, þeir gjörningar sem hér koma fram. Settur var á fundur, aðilar fengnir til kaupa á víkjandi láni og þegar bankarnir hrundu töpuðu lífeyrissjóðirnir þessu öllu.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekkert að fara yfir það frekar, tapið stendur í tæpum 500 milljörðum samkvæmt skýrslunni. Raunverulega (Forseti hringir.) tel ég að tapið sé langtum meira, það kemur í ljós. (Forseti hringir.) En opinbera rannsókn þarf á starfsemi lífeyrissjóðanna fyrir hrun, það er ekki nokkur spurning.