140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Oft er ég sammála hv. þingmanni og kannski oftar en hitt, en ég get ómögulega tekið undir með hv. þingmanni um að þessi skýrsla sé einhvers konar tilraun lífeyrissjóðanna til þess að verða hvítskúraðir. Þá vil ég bara segja: Sér er nú hver þvotturinn, því að í skýrslunni er auðvitað dregið fram og varpað ljósi með mjög krítískum hætti á ýmsa hluti sem miður fóru í starfsemi lífeyrissjóðanna. Þess vegna tel ég að þessi skýrsla sé mjög gott plagg. Auðvitað er hægt að gagnrýna einstök efnisatriði, það hafa menn gert, m.a. hjá lífeyrissjóðunum, sem bendir ekki til að þetta hafi verið pöntuð skýrsla af þeirra hálfu. Þeir vefengja til dæmis heildartölurnar um tapið o.s.frv.

Ég vil rifja það upp, vegna þess að mér finnst það skipta miklu máli til að tryggja trúverðugleika allrar þessarar skýrslugerðar, að lífeyrissjóðirnir sjálfir höfðu um það frumkvæði eftir mikla umræðu, meðal annars hér á Alþingi, að skynsamlegt væri að fara ofan í störf og starfshætti lífeyrissjóðanna. Til að það yrði gert með trúverðugum hætti varð það niðurstaða stjórnar og varastjórnar Landssambands lífeyrissjóðanna að fela ríkissáttasemjara, sem sannarlega hefði enga hagsmuni gagnvart lífeyrissjóðunum, að tilnefna þrjá tiltekna einstaklinga til verksins. Til þess voru ráðnir fyrrverandi hæstaréttardómari, prófessor við Háskólann á Akureyri, ákaflega vandaður maður sem ég þekki af persónulegum kynnum, og ungur viðskiptafræðingur. Þeir fengu síðan til liðs við sig sérfræðinga á ýmsum sviðum til að fara yfir málið.

Ég vil segja þetta hér vegna þess að mér finnst mjög rangt að dæma þessa skýrslu með einhverjum hætti úr leik vegna þess að lífeyrissjóðirnir sjálfir áttu að henni frumkvæðið. Mér finnst lofsvert að lífeyrissjóðirnir sjálfir hafi kallað eftir því að gerð yrði úttekt á þeirra eigin störfum.