140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Ég tel að þegar skipunarbréfið frá lífeyrissjóðunum er lesið komi í ljós að það feli ekki í sér miklar takmarkanir á þeim heimildum eða möguleikum sem þessir starfsmenn höfðu til að rannsaka, þeir gátu eiginlega rannsakað hvaðeina sem þá lysti og töldu ástæðu til að rannsaka í starfi lífeyrissjóðanna. Það voru býsna opnar óskir um það í skipunarbréfinu.

Varðandi þagnarskylduna er það auðvitað rétt, vísað er í tiltekin lög sem kveða á um þagnarskyldu og þannig er þetta. Auðvitað höfðu lífeyrissjóðirnir ekki möguleika á að fá því breytt, það erum við alþingismenn sem getum gert það. Rannsóknarnefnd Alþingis, eins og við munum, fékk mjög víðtækar heimildir og slíkar heimildir eru algjört einsdæmi í sögunni. Fyrir þá rannsóknarnefnd var opnað á heimildir sem voru langt umfram það sem við höfum síðan séð. Það gerir ekki að verkum að þessi skýrsla sé einhver hvítþvottur. Það gerir heldur ekki að verkum að við eigum að dæma hana með neikvæðum hætti út frá því. Við skulum hins vegar fara yfir efnisatriði málsins, og það er mögulegt að finna eitt og annað að skýrslunni. Ég vakti til dæmis athygli á því að lífeyrissjóðirnir sjálfir teldu að í skýrslunni kæmi fram mjög mikið ofmat á taptölunum. Það er mál sem menn geta rætt. Það getur vel verið að menn í þessari vinnu hafi síðan komið auga á að eitt og annað þyrfti að skoða betur. Þá gera menn það. Mér finnst það hins vegar ekki endilega kalla á að Alþingi skipi einhverja allsherjarrannsóknarnefnd yfir lífeyrissjóðunum til að gera aðra úttekt í kjölfar þessarar. Ég tel að þá eigi að skoða þau atriði sem menn telja að standi út af við yfirferð á þessari skýrslu og skoða ef tilefni er til. Ég held að þessi skýrsla sé á margan hátt mjög gagnleg.

Gleymum því ekki sem er aðalatriði málsins að við Íslendingar búum við gott og öfundsvert lífeyriskerfi. Jafnan hefur þar tekist þokkalega til um ávöxtun. Það varð auðvitað sérstakt hrun árið 2008. Þá varð neikvæð raunávöxtun (Forseti hringir.) upp á 21% eða þar um bil, en árin þar á undan hafði almennt talað verið prýðileg ávöxtun á lífeyrissjóðunum.