140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísa aftur í það, eins og hv. þingmaður fór yfir, að þessi úttektarnefnd hafði ekki þær yfirgripsmiklu heimildir til að grípa til rannsókna eins rannsóknarnefnd Alþingis, og ég er heldur ekkert að tala um það. En eins og þingmaðurinn kom réttilega inn á er það Alþingis að opna á það og létta af þeim trúnaði með því að samþykkja þingsályktunartillögu eða frumvarp í þinginu til að hefja allsherjarrannsókn á því sem gerðist í aðdraganda bankahrunsins hjá lífeyrissjóðunum.

Þessi skýrsla sem liggur hér fyrir er mjög góður grunnur fyrir þá vinnu, því að eins og ég fór yfir í ræðu minni er þetta mjög góð samantekt á þróun lífeyrissjóðakerfisins frá því að til þess var stofnað, fram til ársins 2009, svo það sé sagt hér. En það sem ég gagnrýni við skýrsluna eru hlutirnir sem vantar í hana.

Ég var á þessum umrædda fundi þegar skýrslan var kynnt. Nefndarmenn voru þráfaldlega spurðir að því hvort þeir hefðu komist að því að um hugsanlegt refsivert brot væri að ræða. Því gátu þeir ekki svarað vegna þess að þeir voru bundnir trúnaði gagnvart því sem þeir sáu, enda höfðu þeir náttúrlega ekki gagnvirkar rannsóknarheimildir til að meta hvort eitthvert sakamál væri í spilunum eða ekki.

Hér stendur á bls. 15, með leyfi forseta:

„Samkvæmt yfirlýsingunni skuldbatt nefndin sig meðal annars til að vitna ekki í afhent gögn í öðrum tilgangi en til að undirbyggja og rökstyðja skýrslu úttektarnefndarinnar.“ — Undirbyggja og rökstyðja.

Þessir aðilar hafa sjálfsagt séð ýmislegt sem þolir varla dagsins ljós en þeir máttu ekki benda á það og ekki nota það í öðrum tilgangi en að rökstyðja og undirbyggja þessa skýrslu.

Ég get ekki tekið undir húrrahróp þingmannsins um að ávöxtun íslenska lífeyrissjóðakerfisins hafi verið mjög góð. Þegar allt var í bullandi uppsveiflu og (Forseti hringir.) fyrirtæki voru að kasta inn miklum upphæðum, skilaði lífeyrissjóðakerfið ekki nema 2–2,5% ávöxtun á hverju ári, alveg hneykslanlegt. (Gripið fram í.)