140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða góða skýrslu um stöðu lífeyrissjóðanna. Valinkunnir einstaklingar voru skipaðir til að vinna hana. Ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega dálítið sleginn eftir orð síðasta ræðumanns þar sem fram kom að jafnvel væri skynsamlegt að skoða alvarlega að ríkisvæða og taka upp eignir lífeyrissjóðanna. Mér er hálfbrugðið eftir þau orð. Það væri algjört brjálæði að mínu mati.

Vegna orðaskipta áðan á milli hv. þingmanna held ég að það sé mjög mikilvægt að við öndum rólega og förum yfir þetta af yfirvegun. Nóg er af málefnum í þjóðfélaginu sem við erum að ræða hér og annars staðar sem menn ræða af allt of miklu offorsi.

Ég hef ekki þaullesið skýrsluna sem við erum að ræða, blaðsíðu fyrir blaðsíðu, heldur farið gróft í gegnum hana en að mínu mati er hún mjög fín. Spurningin er kannski: Svarar hún öllum spurningum? Ég ætla ekki að fullyrða um það, en ég held að það sé mjög mikilvægt að við drögum andann rólega. Ef það verður niðurstaðan eftir umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að þar standi einhverjar spurningar út af er bara eðlilegt að við fáum svör við þeim. Ég vara hins vegar við því að menn á Alþingi felli stóra dóma. Það teldi ég mjög alvarlegt og ekki síst þegar menn hafa jafnvel ekki allar þær upplýsingar sem kannski er æskilegt að hafa. Þess vegna tel ég mikilvægt að við ræðum af yfirvegun hvaða annmarka við sjáum á skýrslunni sem ég fullyrði ekkert að séu. Ef einhverju er ósvarað skulum við bara leita svara við þeim spurningum áður en við förum að fella dóma og jafnvel fullyrða að þarna hafi verið á ferðinni refsiverð athæfi sem jafnvel varði við lög. Það þykir mér því miður ekki gott að gera við þessar aðstæður. Við eigum ekki að ræða þetta í pólitískum hanaslag, við eigum að ræða þetta af yfirvegun.

Lífeyriskerfið er að mínu mati heilt yfir fínt. Lífeyrissjóðirnir hafa safnað miklum inneignum, 2 þús. milljörðum, og við eigum ekki að tala það neitt niður og nota svona aðferðafræði og skýrslur til að gera það. Eflaust er margt gagnrýnisvert, eflaust má læra af því sem hefur verið gert, en við skulum passa okkur á því að fella mikla dóma.

Eins og ég sagði áðan var mér brugðið eftir orð síðasta ræðumanns, um hugsanlega þjóðnýtingu lífeyrissjóðanna sem er jafnvel vel hugsanlegt, en ég tek undir með hv. þm. Magnúsi Norðdahl í ræðu hér fyrr í dag. Hann varaði við því að aðkoma stjórnmálamannanna að lífeyrissjóðunum yrði öðruvísi en hún er í dag. Ég tek heils hugar undir það. Ég tek líka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar, að það sé mjög mikilvægt að þegar gerðar verða breytingar á lögum um lífeyrissjóðina verði það gert í sem mestri og bestri sátt og samvinnu við lífeyrissjóðina og stjórnir þeirra á hverjum tíma. Þetta er fjöreggið okkar og við megum ekki gera lítið úr því.

Þá kem ég inn á þann veruleika sem við búum við í dag. Ég er dálítið hugsi yfir því sem er að gerast þessa dagana þegar stjórnvöld setja að mínu mati hálfgerða svipu eða snöru á lífeyrissjóðina með því að segja við þá: Nú verðið þið að hjálpa okkur að kaupa aflandskrónur, annars þurfum við að borga vaxtabætur upp á 2,8 milljarða. Það tel ég ekki góða framkomu af hálfu stjórnvalda. Það er hugsanlega verið að þvinga, það er mitt mat, með óbeinum hætti ætla ég að orða það, lífeyrissjóðina til að taka þátt í einhverju sem þeir telja jafnvel ekki skynsamlegt til að það séu þá kaup kaups, að þeir þurfi ekki að taka þátt í svokölluðum vaxtabótagreiðslum. Eftir því sem mér er tjáð eru heildareignir lífeyrissjóðanna í erlendum eignum í dag um það bil 21%. Við vitum hvað hefur gerst eftir að gjaldeyrishöftin komu á. Það er málefni sem við þurfum að ræða mjög vel, hvort við getum í því hagkerfi sem við erum í núna haft það óbreytt.

Við erum með kröfu um 3,5% raunávöxtun á lífeyrissjóðina og við þurfum að ræða hvort hún sé óeðlileg. Þurfum við að endurskoða hana, sérstaklega í ljósi gjaldeyrishaftanna? Fjárfestingarþörfin hjá lífeyrissjóðunum er um það bil 120 milljarðar á ári og ég spyr: Rúmast innan okkar lokaða hagkerfis að gera kröfu um 3,5% raunávöxtun? Það er nokkuð sem við þurfum að ræða af yfirvegun. Ég tel að það séu blikur á lofti og við þurfum að hugsa þetta upp á nýtt og jafnvel færa niður ávöxtunarkröfuna. Þegar við erum að tala um að færa niður vextina, stöldrum við þá ekki alltaf við þessa 3,5% raunávöxtunarkröfu? Þegar ríkið fer í útboð, sem reyndar er lægra á þessum tímum, hefur þetta áhrif á það hvernig við getum fjármagnað ríkissjóð, þ.e. hvert vaxtastigið er. Allt þetta þurfum við að ræða af yfirvegun og í rólegheitunum.

Það hefur setið dálítið í mér eftir að við vorum að ræða um hækkun vikmarka á svokallaðri A-deild lífeyrissjóðanna í desember sl. að þá kom fram að Fjármálaeftirlitið hefur aldrei fært A-deildina sem með ríkisábyrgð. Við þekkjum alveg söguna með B-deildina, þetta skrímsli sem var búið til sem er í kringum 350–400 milljarðar ófjármagnað í dag og meira að segja þurfti að loka deildinni, stofna aðra sem átti að sjá um sig sjálf. Nú er staðan sú að við erum komin með 47 milljarða skuldbindingu á lífeyrissjóðinn, reyndar 4,3 sem eru áfallnir nú þegar, og þá eru viðbrögð okkar að hækka vikmörkin úr 10 upp í 15. Ég tel mikilvægt að við ræðum nú, og fagna því að hæstv. fjármálaráðherra situr í salnum, það sem kom fram á fundi hv. fjárlaganefndar. Fulltrúum launþegahreyfingarinnar sem sæti eiga í stjórninni hafa í tvígang borist tillögur með stuttu millibili um að hækka iðgjaldið. Það gilda sérlög um A-deildina sem segja að stjórnarmennirnir sem þar sitja eigi annaðhvort að leggja til að iðgjaldið verði hækkað eða þá að skerða réttindin sem gæti hugsanlega falist í því að hækka lífeyrisaldur úr 65 í 67. Það er meðal þess sem var nefnt.

Í tvígang hafa fulltrúar launþegahreyfingarinnar borið upp tillögu um að hækka iðgjaldið en það var fellt af fulltrúum stjórnvalda. Það sem stendur eftir hjá mér eftir þessa umfjöllun í fjárlaganefnd er aðstaða þeirra einstaklinga sem sitja í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fyrir hönd framkvæmdarvaldsins. Það kom skýrt fram á fundi nefndarinnar að fulltrúar launþegahreyfingarinnar gerðu þetta eftir að hafa látið skoða lagalega stöðu fulltrúa sinna sem einstaklinga. Ég tel mikilvægt að við ræðum af hreinskilni og heiðarleika í hvaða stöðu við erum hugsanlega að setja þetta ágæta fólk sem er að stærstum hluta embættismenn að vinna hjá framkvæmdarvaldinu. Ég er að hugsa inn í framtíðina. Erum við að setja þetta fólk í óþægilega stöðu? Þó að það eigi ekki að vera þráður á milli ráðuneytisins og framkvæmdarvaldsins og fulltrúa stjórnarinnar er þetta samt sem áður mjög óþægileg staða. Ég tel mikilvægt að við förum yfir það. Mig grunar, án þess að ég ætli að fullyrða neitt um það, að þau skilaboð komi frá ráðherrunum að menn vilji hugsanlega ekki hækka greiðslurnar inn í lífeyrissjóðinn af því að það sé skynsamlegra að nota fjármagnið í einhver önnur verkefni. Það hentar betur þegar menn fara í pólitískar kosningar. Ég held að það sé umhugsunarefni fyrir okkur í hvaða stöðu þeir einstaklingar sem eiga sæti í þessari stjórn eru settir sem persónur. Við þurfum að gera það af ábyrgð.

Ég vil nota síðustu sekúndur mínar í þessum ræðutíma til að segja að við þurfum að ræða jöfnun í lífeyriskerfinu. Við þurfum ekki að deila um það. Við megum samt ekki stilla því þannig upp að við rekum fleyg á milli þeirra sem eru í opinberu sjóðunum og þeirra sem eru í almennu sjóðunum. Auðvitað er ekki réttlæti í því, eins og menn hafa bent á, að sumir sem eru jafnvel að vinna á sömu vinnustöðum hafi ekki aðgang að sama lífeyrissjóði. Það er hárrétt ábending. Við megum samt ekki búa til þessi átök því að það er ekki vænlegt til árangurs. Við þurfum að skoða kerfið í heild sinni, líka almannatryggingakerfið og skerðingarnar. Menn skerðast krónu fyrir krónu allt upp í 70 þúsund þannig að þeir sem hafa greitt í lífeyrissjóði í langan tíma standa kannski með sömu ráðstöfunartekjur í dag og þeir sem höfðu greitt nánast ekki neitt allan tímann. Þetta er nokkuð sem verður að taka á í heildarsamhenginu og ég held að það sé mjög mikilvægt að við gefum okkur þann tíma sem við þurfum til að ræða stöðu (Forseti hringir.) og framtíðarhorfur lífeyrissjóðanna í heild sinni á yfirvegaðan hátt án þess að vera með sleggjudóma þar um.