140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leiði líkur að því eftir svar þingmannsins að við séum að verða nokkuð sammála um það sem ég var að tala um. Þetta er nokkurs konar blekking, það er alveg rétt, og varðandi lífeyrissjóð opinberra starfsmanna er um að ræða frestun á greiðslum og annað. En við stöndum samt frammi fyrir þeirri staðreynd að það eru fyrst og fremst aðilar á almenna vinnumarkaðnum sem greiða tap lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Þá má segja að við séum jafnvel að horfa fram á nokkurs konar þjóðnýtingu og þá vísa ég líka í það að ríkisstjórnin ruddist inn í almennu lífeyrissjóðina fyrir jól og skattlagði þá. Ég greiddi atkvæði á móti því þannig að ég er ekki talsmaður þjóðnýtingar en við skulum líka átta okkur á því hvar við erum stödd, hvað ríkissjóður skuldar mikið. Það er nokkurs konar krafa um þjóðnýtingu þegar ríkisstjórnin fer fram með þá kröfu á lífeyrissjóðina að koma með fjármagn inn í ákveðin verkefni, sem eru mismunandi arðbær. Það er hálfgerð krafa um þjóðnýtingu þegar lífeyrissjóðirnir sjálfir hafa ekki frelsi til að fjárfesta þar sem þeir vilja. Við vitum að núna er erfitt um vik eftir hrunið með fjárfestingar en ríkisstjórnin á heldur ekki að skipta sér af því hvar lífeyrissjóðirnir festa sitt fé.

Ríkisstjórnin fer líka fram með það, og gerði um áramótin, að minnka séreignarsparnaðinn úr 4% niður í 2%. Það segir okkur að ekki er lengur hvati til að spara þannig að þessi velferðarvinstristjórn, eins og hún vill kalla sig, er smám saman að brjóta niður þetta lífeyrissjóðakerfi sem við eigum. Kerfið er raunverulega í molum eftir hrun, ég viðurkenni það alveg, en við þurfum líka að opna augun fyrir því hvort við séum komin á þann tímapunkt í dag, þegar 60 þúsund fjölskyldur eiga ekki fyrir (Forseti hringir.) greiðslum af húsnæðislánum, að lífeyrissjóðirnir komi að til að bjarga þeim yfir versta hjallann svo að þær geti hreinlega lifað í þessu samfélagi.